Geysir Bistro

Við Eygló skruppum á Geysi Bistro á mánudaginn fyrir viku. Ég ákvað að panta mér: „Pasta with chichen [svo], bacon and garlic“.

Þegar ég fékk réttinn fór mig fljótlega að gruna að það væri ekki allt eins og það ætti að vera. Kemur í ljós að það er fullt af lauk þarna á meðan enginn hvítlaukur finnst. Það er ekki gaman því þó mér þyki laukur ágætur á bragðið þá fer hann alveg voðalega í mig.

Ég hefði þó getað sætt mig við að veiða laukinn uppúr ef annað hefði verið í lagi. En svo var ekki. Beikonið og kjúklingurinn voru þarna í bitum sem voru alveg hroðalega bragðlausir og öllu drekkt í ólystugri lapþunnri rjómasósu sem gerði ekkert fyrir réttinn.

Ég hefði vissulega getað kvartað en ég var satt best að segja ekki í neinu stuði fyrir slíkt. Ég skildi meiripartinn af matnum eftir og fór fúll út. Ekki fer ég þangað aftur.