Landsdómur

Það er kannski bara ágætt að lesa hann Baldur McQueen í dag.

Það þarf vissulega að endurskoða lög um Landsdóm en ég sé ekki að það komi því við hvort það eigi að ákæra. Alþingi á að fara eftir gildandi lögum.

Þingmenn samþykktu að fara þessa leið og því er fráleitt að lýsa frati á hana núna. Þeir hefðu getað gert athugasemdir á sínum tíma.

Það eru fimm ár síðan síðast var skipað í Landsdóm. Ég veit ekki til þess að athugasemdir hafi verið gerðar þá. Mögulega töldu menn að þeir væru bara að úthluta merkingarlausum titlum til flokksgæðinga en ég get ekki trúað öðru en að fólk hafi velt fyrir sér fyrirbærinu um leið. Þarna var gott færi á að gera athugasemdir. Voru þá ekki einmitt allir sem nú verða mögulega ákærðir í lykilstöðu til að koma með gagnrýni þá?
Það er skítt að Finnur Ingólfsson, Halldór Ásgrímsson, Davíð Oddsson og aðrir sleppi en það kemur málinu ekki við. Það þýðir fyrst og fremst að við þurfum að passa að kerfið virki betur ef þetta gerist aftur.

Það er fáránlegt að draga inn í umræðuna mögulega ákæru á hendur Steingrími Joð. Það er bara skítleg hótun. Það er líka einfaldlega þannig að ef gögnin myndu benda til þess að hann væri sekur um brot þá ætti að draga hann fyrir Landsdóm líka. Það er ekkert flóknara en það kemur þessu máli ekkert við.