Það er komin áhugaverð síða á Facebook þar sem er safnað saman auglýsingum frambjóðenda til stjórnlagaþings. Ég setti like á þá síðu. Einhverjir eru farnir að kvarta þar. Umkvörtunarefnið er að þar séu ekki bara taldir þeir sem auglýsa í hefðbundnum fjölmiðlum heldur líka þeir sem auglýsa á Facebook.
Sjálfur mun ég væntanlega ekki eyða krónu í þetta framboð mitt. Ég íhugaði alveg að auglýsa á Facebook enda fór ég þá leið til að kynna báðar bækurnar mínar. Það var frekar ódýrt þá en reyndar hefur það hækkað eitthvað í verði. En ástæðan fyrir því að ég vildi ekki auglýsa á Facebook er að þó auglýsingarnar séu enn frekar ódýrar þá er hægt að eyða háum upphæðum til að tryggja að sem flestir sjái. Augljóslega geta frambjóðendur komið í veg fyrir slíkar grunsemdir með því að birta reikninginn fyrir auglýsingunum jafnóðum. Langflestir sem kaupa þessar auglýsingar eru væntnanlega að eyða vel undir tíuþúsund krónum í heildina. Sjálfum finnst mér ágætt að frambjóðendur viti að það er fylgst vel með þeim og ég treysti fólki til að gera greinarmun á dýrum og ódýrum auglýsingaherferðum.
Það sem mér þótti hins vegar ekki til fyrirmyndar á umræddri síðu er að þar er vitnað í Jónas Kristjánsson. Þar hvetur hann fólk til að reyna að skemma fyrir þeim sem auglýsa á Facebook. Hið augljósa er að Jónas á mjög auðvelt með að hafna auglýsingum enda er hann frægur fyrir og fólk les bloggið hans (þó ekki nærri jafn margir og hann heldur). Hann hefur líka, sem frambjóðandi, hag af því að skemmt sé fyrir mótframbjóðendum hans með þessum hætti. Það er frekar vafasöm framkoma.