Sjálfstæði dómstóla

Mér sýnist á öllu að sátt sé meðal frambjóðenda til stjórnlagaþings um að tryggja betur þrískiptingu valdsins. Það sem ég hef þó saknað er umræða um hvernig megi tryggja sjálfstæði dómstóla. Við höfum séð á síðustu árum hvernig vegið hefur verið að dómstólum landsins með vafasömum ráðningum. Þetta verður að laga.

Ég tel að við þurfum betri skipunarferli við héraðsdóma og hæstarétt en ég tel líka að það sé rúm fyrir eitt virkt dómstig í viðbót. Við gætum jafnvel kallað þetta dómstig Landsdóm. Ég játa að ég horfi mikið til hæstaréttar Bandaríkjanna í þessu samhengi. Landsdómur ætti ekki að taka við hvaða máli sem er frá neðri dómstigum. Dómstóllinn gæti hafnað því að taka mál fyrir ef ekki væri nægilega góður rökstuðningur fyrir áfrýjun. Það gæti líka verið skilyrði að héraðsdómur og Hæstiréttur hefðu dæmt ólíkt í máli til þess að það yrði tekið fyrir. Landsdómur gæti jafnvel haft frelsi til að taka upp mál að eigin frumkvæði. En þetta dómstig hefði þó helst það hlutverk að dæma um mál þar sem stjórnarskráin kemur að máli og hefði vald til að fella niður lög sem það teldi ekki samrýmast stjórnarskrá – stjórnlagadómstóll.

Það hvernig eigi að skipa dómara í þennan nýja dómstól og þá gömlu er stærsta málið. Bandaríkin eru þar ágæt fyrirmynd en ekki fullkomin. Tilnefning um skipan dómara gæti komið frá ráðherra en síðan þyrfti Alþingi að samþykkja tillöguna og þá jafnvel með auknum meirihluta. Væntanlegir dómarar þyrftu þá að fara í gegnum „yfirheyrslu“ hjá þingnefnd áður en atkvæðagreiðsla um skipanina færi fram. Í Bandaríkjunum er vandamálið að pólitískar skoðanir dómara verða alltaf í fyrirrúmi en um leið er erfitt fyrir þingmenn að greiða atkvæði gegn skipan hæfs kandídats ef ekkert annað kemur til.

Hvort sem þessi leið eða einhver önnur verður farinn þá er ekki hægt að leggja of mikla áherslu á mikilvægi þessa málefnis.


Svör mín á Svipunni