Ég horfði á þetta myndband sem þið sjáið hér að neðan í gærkvöldi. Þar fjalla Gunnar Grímsson og Smári McCarthy fjalla um aðgengi að upplýsingum sem grundvallarréttindi sem ættu að koma fram í stjórnarskrá.
Ég er sammála eiginlega öllu sem þarna kemur fram en sem bókasafns- og upplýsingafræðingur hef ég skoðað þessi mál töluvert og hef séð hver stærsti gallinn á upplýsingalögum er en það varðar skráningu. Þegar stjórnmála- og embættismenn þurftu að fara að gefa aðgengi að upplýsingum þá urðu viðbrögðin í raun þau að skrá alltaf minna og minna. Þannig að öllum ákvæðum um aðgengi að upplýsingum stjórnsýslunnar þarf að fylgja nægilega skýr skylda um hvað skal skrá. Það hvernig skuli orða slíka grein gæti orðið mikið flóknara mál en að skilgreina aðganginn.
Ég myndi líka vilja sjá ákvæði í stjórnarskrá um aðgengi að upplýsingum í víðari skilningi en því sem átt er við hér (gögn stjórnsýslunnar). Þar er ég að tala um skyldur sem hvíla á bókasöfnum sérstaklega (í mjög víðum skilningi líka því hér er ég líka að tala um hluti eins og landsaðganginn) en einnig á annars konar söfnum. Ég tel í raun slík réttindi jafnvel mikilvægari en aðgangur að gögnum stjórnsýslunnar enda oft á tíðum líka grundvöllur fyrir því að skilja og geta sett gögn stjórnsýslunnar í samhengi.