Hér sit ég og klukkan að verða níu þó ég birti þetta ekki fyrren seinna. Klukkutími eftir af kosningum og síðan tveir dagar af talningu. Töluvert antíklæmax þar á ferð.
Ég hafði íhugað framboð fram og til baka frá því að hugmyndin um stjórnlagaþing kom fyrst fram. Í lok ágúst ákvað ég að bjóða mig ekki fram en um tveimur vikum fyrir lok framboðsfrestar sannfærði Eygló mig um að keyra á þetta. Ég var reyndar tæpur á tíma þar sem ég var að fara í rúma viku til Þýskalands. Það var lítið mál að safna undirskriftum. Ég var líka svo sem svo afslappaður að ég fór bara rétt yfir þrjátíu ólíkt þeim sem nýttu sér hámarkið.
Þegar nær dró kosningum varð mér ljóst að framboðin yrðu töluvert mörg. Ég hafði talið að ég hefði ágætar líkur á kosningu ef frambjóðendur væru rétt á annað hundraðið en ég var farinn að gera ráð fyrir að þau yrðu jafnvel hátt í þrjúhundruð. Ég ákvað því að breyta aðeins taktíkinni og leggja mesta áherslu á að tala um aðskilnað ríkis og kirkju. Þá gæti ég allavega vakið umræður um þann málaflokk þó ég ætti litlar líkur á kosningu. Ég held að það hafi verið ágætis ákvörðun.
Nú hef ég enga hugmynd um hve mörg atkvæði ég fæ eða í hvaða sæti ég lendi en tel allavega mjög ólíklegt að ég komist að. Ég hef, frá því að tala 523 var fyrst nefnd, haft töluverðar áhyggjur af því að þetta verði þing fræga fólksins. Sumt af því á vissulega fullt erindi þangað en aðrir minna. Frægasta fólkið sem ég kaus voru Illugi, Ómar og Freyja. Valli og Silja eru svosem líka fræg en ekki jafn. Flestir á listanum mínum voru hins vegar frekar lítið þekktir. Það væri gaman ef eitthvað af þessu litla fólki kæmist að.
Á þessu ferli kom vel og vandlega í ljós hve lélegur ég er að prómótera sjálfan mig sem frambjóðanda mann á mann. Í síðustu viku lenti ég í hófi með fyrrverandi vinnufélögum og reyndi hvað ég gat að tala mig frá stjórnlagaþingsumræðu. Það kom mér hins vegar þægilega á óvart hvað það var auðvelt að koma fram í útvarpi og hve vel ég stóð mig þar. Alveg laus við hógværð sko. Fjölmiðlar stóðu sig almennt illa. DV vann stjórnlagaþingskosningarnar og mega menn þar vera stoltir af því. Ég skrifaði líka nokkrar greinar en hafði mjög sterkt á tilfinningunni að það væru fyrst og fremst frambjóðendur að lesa þær. Það er í raun að vissu leyti ágætt því að ég stefndi líka á að því að hafa áhrif á þá.
Ég veit ekki hvernig stjórnlagaþing mun virka og hvort því tekst að uppfylla hlutverk sitt. Það fer fyrst og fremst eftir því hverjir komast að. Ég held að erfiðasta verkefnið verði að búa til rökrétt og fúnkerandi kerfi út frá öllum þeim hugmyndum sem koma fram. Ef aðskilnaður kemst inn á borðið ætti það mál í raun að vera fljótafgreitt vegna þess hve lítil áhrif það hefur á aðra vinnu þingsins. Ég tel að það væri synd og skömm ef tillögur að nýrri eða endurbættri stjórnarskrá innihéldi áframhaldandi mismunun eftir trúarskoðunum.
En ég sé ekki eftir þessu og er töluvert forvitinn að sjá hvernig mér og öllum hinum hefur gengið en ég ætla ekki að vaka eftir úrslitunum. Ég geri líka ráð fyrir að sofa rótt.
Ég þakka stuðninginn og mér hefur þótt vænt um hann.