Í síðustu viku sá ég frétt um Facebook og hjónaskilnaði og ég hristi höfuðið. Ég ætlaði að skrifa athugasemd á þessa bloggfærslu Andrésar en ákvað að skrifa heila færslu í staðinn.
Facebook er vissulega hættulegt hjónaböndum en þá á sama hátt og símar, póstur og önnur samskiptatæki eru það. Allt sem gerir fólki auðveldara að hafa samskipti við annað fólk getur verið notað í framhjáhaldi. „Vandamálið“ við Facebook er hins vegar hve mikla slóð fólk skilur eftir sig. Makar eru þá gripnir. Ég verð að játa að mér finnst það í sjálfu sér ekki vera vandamál. Vandamálið er að fólk skuli halda framhjá. Það hefur ekkert breyst. Undir niðri eru þá líklega einnig vandamál sem voru fyrir í sambandinu.
Í fréttinni sem ég talaði um var rætt við prest sem hafði oft heyrt fólk sem stæði í hjónaskilnaði minnast á Facebook. Ég get vel trúað því. Maki sem hefur verið staðinn að framhjáhaldi og er neyddur til að hitta prest er mjög líklegur til að reyna að gera lítið úr sök sinni. Sá er líklegur til að reyna að treysta á tæknifóbíu klerksins í von um að koma sjálfur betur út. Sjálfur sé ég prestinn halla sér aftur og segja orðið Facebook í tóni sem gefur til kynna að nú skilji hann hvað gerðist.
Góður sökudólgur þetta Facebook.
En þetta hlýtur að lagast. Makar sem nota Facebook í framhjáhaldinu munu örugglega verða meira og meira meðvitaðir um að leyna slóð sinni og þá mun þetta vandamál hverfa. Ekki satt?
–
Eftir þessar pælingar netþjóðfræðingsins er rétt að benda á að bók mín Eve Online: Leikir, sköpun og samfélög er til í Bóksölu stúdenta (og reyndar hjá mér sjálfum).