Við fórum í dag til Keflavíkur í afmæli til Danna vinar okkar. Gunnsteinn gubbaði vel og vandlega þegar við vorum að koma inn í bæinn þannig að það fyrsta sem við gerðum þegar við komum heim til Danna var að fara með drenginn inn á baðherbergi og setja hann í varafötin. Í veislunni tókst Gunnsteini síðan að hella yfir sig, og gólfið, kók og kaffi. Fyrirmyndargestir.
En við fórum síðan í Mjóddina þar sem ég hljóp inn til að kaupa léttreyktan KEA lambahrygg og mat á Subway. Rétt á eftir mér í kafbátaafreiðslunni var eldri maður sem kunni greinilega ekki á kerfið.
Afgreiðslustúlka: Viltu hita eða rista?
Viðskiptavinur: Ha?
Afgreiðslustúlka: Viltu hita eða rista?
Viðskiptavinur: Nei.
Afgreiðslustúlka: Ekki?
Viðskiptavinur: Nei, er þetta ekki volgt?
Afgreiðslustúlka: Er þetta vont?
Viðskiptavinur: Ha?
Á þessum tímapunkti fékk ég samlokurnar okkar Eyglóar og missti því af framhaldinu.