Af póstlistum og stjórnlagaþingsframbjóðendum

Í dag hafa komið um 40 gagnslausir póstar í innhólfið mitt frá frambjóðendum til stjórnlagaþings, póstþjónum þeirra og sjálfvirkum out-of-office stillingum þeirra. Einn frambjóðendanna, Baldvin Björgvinsson (sem er bjáni dagsins), spammaði okkur öll með slóð á IceSave undirskriftalista. Af stað fór fyrirsjáanleg keðja, sem fór reyndar líka af stað í nóvember meðal frambjóðenda, þar sem fólk bað um að láta taka sig af þessum “póstlista”.

Þegar ég hafði fengið tvo pósta í hólfið sendi ég ábendingu til allra um að senda ekki póst á alla heldur bara frumsendandann. Það virkaði ekki og allt fylltist af rusli. Smávægilegur pirringur hefur margfaldast.

Hér vantar greinilega þörf á tölvupóstkennslu.

  • Ef þú sendir fjölpóst á marga ótengda aðila þá er lágmarkskurteisi að láta póstföngin í línuna BCC. Þá sér fólk ekki netföngin hjá hvert öðru og getur ekki sent þeim óvart svarpóst.
  • Aldrei nota “reply-to-all” nema að þú viljir alveg endilega örugglega senda svar til nákvæmlega allra sem fengu póstinn sem þú ert að svara. Gott er að athuga hvort það séu mörg tölvupóstföng í viðtakaendalistum áður en svona póstar eru sendir.
  • Ef þetta hefði í raun verið póstlisti (í þeirri merkingu sem við notum orðið oftast í) en ekki einfaldur fjölpóstur þá hefðu verið röng viðbrögð að senda póst þar sem þú biður um að láta taka þig af póstlistanum. Allir alvöru umræðu- og tilkynningapóstlistar senda alltaf upplýsingar um hvernig á að skrá sig af þeim neðst í skeytunum. Vissulega eru margir umsjónarmenn sem taka að sér að afskrá slíkt fólk en það er dæmi um meðvirkni (ég held ég hafi aldrei í lífinu notað þetta orð áður) og við umsjónarmenn póstlista ættum að hætta slíku. Fólk verður að læra þetta sjálft. Svarið þeim frekar og bendið þeim á hið augljósa.