Af Jónasi og nákvæmninni

Jónas Kristjánsson lætur ekki algjört þekkingarleysi sitt koma í veg fyrir að hann skrifi um málefni. Nýjasta færsla hans er dásamleg:

Komið er í ljós, að úrtak sannprófunar Frosta Sigurjónssonar var 100 manns, en ekki 74. Það þýðir, að 69 af 100 manna úrtaki staðfestu undirskrift sína á bænarskrá til forsetans. Það þýðir, að 31% af útkomunni er undir grun um fölsun. 31% af 37.000 undirskriftum eru þá 11.500 fölsuð nöfn. Þýðir, að 25.500 undirskriftir eru ófalsaðar. Líklega nærri lagi. Hlýtur að teljast algert flopp. Fölsunin var gerð möguleg með því að nota forritið Joomla 1.5 og kippa viðbótunum Core Design Petitions og Captcha úr sambandi.

Jónas veit sumsé hvorki hvað hann er að tala um þegar kemur að tölfræði né þegar kemur að tölvumálum.

Þegar sagt er að ekki sé hægt að draga neinar ályktanir frá svona litlu úrtaki þá þýðir það að fabúleringar Jónasar eru líka marklausar.

Jónas vitnar líka í Teit sem benti á að valmöguleiki í viðbótinni Core Design Petitions fyrir Joomla hefði verið afvalinn þegar undirskriftarsöfnunin var sett upp. Jónas skilur hins vegar hvorki upp né niður í tölvumálinu og heldur að viðbótin sem var notuð fyrir söfnunina hafi verið tekin úr sambandi þegar hún var þvert á móti notuð.

Ef Jónas vill tjá sig um þetta þá mætti hann skrifa eitthvað á þessa leið: Forráðamenn söfnunarinnar virðast hafa sérstaklega ákveðið að nýta ekki valmöguleika í undirskriftarkerfinu (sem almennt er sjálfgefinn) sem hefði orðið til þess að þeir sem skráðu sig þyrftu að staðfesta undirskriftina í tölvupósti. Þetta er reyndar með meiri fyrirvörum en Jónas notar almennt og þar að auki lifi ég í þeirri von að lesendur mínir séu ekki fávitar upp til hópa og ráði við setningu sem er aðeins yfir meðallengd. Ef hann vill brjóta þessa setningu í auðmeltanlegri mola þá er honum bent á að fá einhvern sem hefur vit á málinu til þess að lesa hana yfir áður en hún er birt.

Sjáið til, þó einhver sé svona í einhverjum grunnatriðum sammála manni þá þýðir það ekki að sá megi rugla út í eitt athugasemdalaust.