Af Lissabonráðstefnu

Ég fór núna í dymbilviku til Lissabon á ráðstefnu SIEF sem eru faktískt  evrópsku þjóðfræðisamtökin þó nafnið tali um alþjóðlegheit og enginn sé útilokaður. Ég fór á ráðstefnu sömu samtaka árið 2008 í Derry.

Ég held að við höfum verið 11 Íslendingar sem fórum. Ég fékk sjálfur styrk frá CCP til að fara og tala um meistararitgerð mína og tók þátt í málstofu sem var tileinkuð netþjóðfræði. Það var vægast samt skemmtilegt og fræðandi að hlusta á þetta fólk. Ég vona innilega að við gefum þetta út saman eins og hefur verið rætt.

Það voru tveir fyrirlestrar í minni málstofu sem vöktu sérstaklega áhuga minn. Annars vegar fjallaði Pat Turner um rasískra orðróma í kjölfar fellibylsins Katrina (ekki Katrínar) sem minnti mig á gamla færslu sem ég skrifaði um ritstjóra AMX og hins vegar fjallaði Rob Howard um bókstafstrúarmenn á netinu. Það sem gerði þessa fyrirlestra öðruvísi er að þau voru í raun bæði að fjalla um hópa á gagnrýnin hátt sem er ekkert sérstaklega algengt í þjóðfræði (en ekkert óþekkt). Þar er líklegra að gagnrýni komi fram sem vörn fyrir þá hópa sem eru skoðaðir og beinist að einhverjum öðrum (ráðandi hópum eða yfirvöldum).

Við fórum öll út að borða eftir málstofuna og þá spjölluðu Rob og Pat aðeins um það hvernig er að stunda slíkar rannsóknir. Það var mjög áhugavert að hlusta á þau tala og sjá hvað þeim var mikilvægt að láta þessa hópa alltaf njóta sannmælis. Þau lýstu því hvernig þau reyndu að ræða um það sem var almennt frekar en að einblína á neikvæðustu þættina. Þau hefðu nefnilega átt ákaflega auðvelt með að safna bara saman því versta sem þau sáu frá þessu fólki en hunsa allt hitt. Ef þau hefðu farið þá leið hefði maður að sjálfsögðu fengið mjög skekkta mynd af þessum hópum. Lukkulega þá eru þetta vandaðir fræðimenn sem er umhugað um að sinna starfi sínu af heillindum.

Þó mín málstofa hafi vissulega verið áhugaverðust af öllu sem ég sá þarna þótti mér líka margt annað gaman. Ég hitti, hlustaði á og spjallaði jafnvel við fræðimenn sem ég hef lesið ýmislegt eftir. Til dæmis var þarna Jack Santino sem skrifaði mjög áhugaverða bók um tákn í deilunum á Norður Írlandi og Charles Briggs sem tók við af Alan Dundes í UC Berkeley. Ég rakst ekki á neinn sem er „stórt nafn“ í fræðunum sem kom ekki bara fram við mig (sem og aðra óþekkta þjóðfræðinga) eins og jafningja.

Mér þótti þó reyndar sérstaklega gaman í kokteilboðinu fyrsta kvöldið að hitta finnskar stelpur frá því í Derry sem mundu eftir mér og voru glaðar að sjá mig (en á sama tíma mjög óglaðar vegna kosningaúrslitana sem voru að berast þeim). Það var gott að finna að maður var ekki bara einn af nemendum Valdimars heldur einnig þarna á eigin forsendum. Ekki það að ég hafi neitt á móti því að fólk þekki mig sem nemenda Valdimars enda var hann voðalega duglegur að kynna mann fyrir áhugaverðu fólki héðan og þaðan.

Ég ætla rétt að vona að ég haldi mér nægilega við í fræðunum til að réttlæta að ég taki svona ráðstefnuferðir reglulega. Það er ákaflega gefandi.