Þingmaður án kjósenda

Í síðustu Alþingiskosningum datt Ásmundur Einar Daðason óvart inn. Hann hafði engan stuðning á bak við sig í raun. Stóru flokkarnir fengu nær jafn mörg atkvæði í Norðvesturkjördæmi en Sjálfstæðisflokkur þó flest. Sökum undarlegheita kosningakerfisins fékk þó VG þarna inn einum fleiri þingmann en aðrir. Ásmundur flaut inn á atkvæðum sem öðrum framboðslistum VG, öðrum frambjóðendum VG, voru greidd. Ólíkt flestum öðrum þingmönnum sem ég man eftir að hafi gengið úr þingflokkum sínum þá hefur Ásmundur enga kjósendur á bak við sig persónulega.

Það er því sérstaklega ergilegt að sjá Ásmund ganga úr þingflokknum. Ekki vegna þess að ég muni sakna hans. Þvert á móti hefur hann alltaf minnt á mig á leiðinlegan smákrakka. Það sem ergir mig er að hann er þarna meðal annars á atkvæði mínu sem ég hefði aldrei nokkurn tímann gefið honum. Ég hafði hvorki tækifæri til að strika hann út af atkvæðaseðli mínum né greiða atkvæði um stöðu hans á framboðslista í prófkjöri. Samt er hann inni á þingi á atkvæði mínu og ég get ekkert við því gert.