Evran og allt það

Evra => ? => Stöðugt efnahagslíf. Svona hef ég heyrt of marga stuðningsmenn evrunnar tala undanfarið. Það að taka þátt í evrusamstarfinu á sjálfkrafa að bjarga okkur frá þeirri slæmu efnahagsstjórn sem hefur hrjáð Ísland síðan við tókum upp sjálfstæða efnahagsstjórn. Mér sýnist að Krugaman hafi náð að ergja þá með því að benda á hið augljósa að Íslendingar ættu bara að ástunda betri efnahagsstjórn.Evrusinnar virðast halda að aðild að evrusamstarfinu komi einhvern veginn í staðinn fyrir slíkt. Sem leiðir hugann að Grikklandi sem virðist ekki hafa frelsast frá slæmri efnahagsstjórn. Ég held að Krugman viti viti sínu og þá ekki bara þegar hann er að tala gegn nýfrjálshyggju.

Nú verð ég að taka fram að mér er að nær öllu leyti sama um krónuna. Mér þætti voðalega þægilegt að hafa traustari gjaldmiðil ef hann kemur sér vel fyrir okkur. Hins vegar kemur evran ekkert í staðinn fyrir góða efnahagsstjórn. Ef við ætlum að taka þátt í evrusamstarfinu þá þurfum við fyrst góða efnahagstjórn og það sem meira er þá þurfum við víst að viðhalda henni eftir að evran er komin. ESB tekur ekkert yfir efnahagsstjórn á Íslandi þó við förum þarna inn.

Ég held að skynsamlegasta innleggið í þessa umræðu hafi komið frá Friðriki Skúlasyni sem sagði:

Það sem menn hefðu átt að gera á sínum tíma – og ættu jafnvel að gera í dag – er að stefna að því að uppfylla Maastrict skilyrðin – ekki í þeim tilgangi að mega taka upp evruna, heldur vegna þess að þetta eru „góð“ skilyrði, sem myndu neyða ráðamenn til að taka upp agaðri vinnubrögð.

Nú er ég ekki hagfræðingur og get ekkert fullyrt um eitt né neitt en er þetta ekki ágætt markmið? Síðan ef þetta tekst þá fyrst höfum við einhverjar forsendur til þess að ræða um það að taka upp evru (ef við höfum áhuga á slíku).