Þörf á raungervingu rafrænna hluta

Meistararitgerð mín í þjóðfræði fjallaði um leikinn Eve Online (hún fæst sem rafbók hjá Emmu). Ein af niðurstöðum mínum var sú að það væri greinileg þörf hjá spilurum leiksins að eignast hluti í raunveruleikanum sem tengjast leiknum. Þetta gat bæði verið varningur frá CCP sem framleiðir leikinn en oft var þetta búið til af spilurunum sjálfum. Mjög algengt var að hópar hönnuðu boli með áprentuðu merki félagsins. Uppáhaldshópurinn minn Veto-Corp (sem ég reyni að minnast alltaf á) bjuggu til svört sorgarbönd þegar félagi þeirra lést. Á því var nafn hópsins, nafn persónu spilarans og stjörnur sem var raðað upp í mynstur sem táknar fallinn félaga.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er að ég var í síðustu færslu að velta fyrir mér hvernig pappírsbækur og rafbækur muni lifa saman í framtíðinni. Gæti verið að fólk hafi þessa sömu raungervingarþörf (ef ég er yfirhöfuð að nota þetta orð á rökréttan hátt – allavega ætti fólk að vita hvað ég á við) þegar kemur að bókum? Gæti verið að fólki finnist það ekki nóg að eiga bókina á lesaranum sínum og vilji hafa efnislegan hlut í höndunum?
Síðan er spurningin hvort að þetta gæti komið fram á annan hátt. Mun þetta auka möguleika höfunda, líklega sjaldnast íslenskra, til að selja minjagripi af ýmsum gerðum í tengslum viðbækur sínar. Þannig myndi bolur, kanna eða stytta þjóna sama tilgangi og það að hafa bókina sýnilega í hillu.