Ólíkar gerðir rafbóka – VHS og Beta?

Ég fékk fyrir þó nokkru síðan þá spurningu hvort að baráttan um hvaða gerðir af rafbókum verði ráðandi sé stríð eins og á milli VHS og Beta þar sem einhverjir sitja eftir með rafbókasafn sem enginn er að framleiða tæki fyrir. Þá svaraði ég nei en í dag er smá vafi.

Rafbókalesarar í dag eru skrýtin fyrirbrigði af því að þeir sem eru mest áberandi eru tengdir söluaðilum bóka. Amazon framleiðir ekki Kindle af því að þeir græða á þeim – þvert á móti virðist fyrirtækið tapa á þeim – heldur af því að það vill geta selt fólki rafbækur. Amazon vill að þeirra rafbókabúð verði ráðandi. Með Kindle er fyrirtækið að reyna að gera neytendur háða þeirra búð. Sem betur býður Amazon upp á valkost þannig að viðskiptavinir þeirra geta sett upp forrit í öðrum tækjum til að lesa bækurnar sem þeir kaupa frá Amazon.

Í dag eru rafbókalesarar þannig að þeir hafa takmarkanir á því hvaðan hægt er að kaupa bækur og hvaða gerðir af rafbókum þeir geta lesið. Það mun breytast. Rafbókalesarar munu í framtíðinni verða meira eins og spjaldtölvur og margir þeirra þá líklega með Android stýrikerfinu. Það þýðir að í stað þess að vera bundinn við eina búð og ákveðnar gerðir af bókum mun notandinn geta tekið inn forrit frá ólíkum söluaðilum til þess að kaupa bækur frá þeim. Þannig geturðu eftir hentugleika verslað við til dæmis Amazon eða Barnes and Noble. Þessi forrit, eða önnur ef menn hætta afritunarvarnarruglinu, geta þá saman lesið flestallar gerðir rafbóka.

Vafinn sem kom nýlega upp er Apple sem virðist ætla að loka sig inni með sínar .ibooks bækur. Það eru ógurlega hörð og ömurleg skilyrði sem fylgja þessari rafbókagerð þeirra. Það gæti þýtt að Apple loki sig af. Þeir vilja að neytendur kaupi rafbækur sem eru búnar til með forritum þeirra á þeirra tækjum í verslun þeirra og geti bara lesið þessar bækur á þeirra tækjum. Sumsé Apple vill ráða yfir öllu. Ég skil bara ekki hvernig þeim dettur í hug að þetta geti gengið upp. Það er einföld leið út úr þessu og það er að búa til forrit fyrir önnur stýrikerfi sem les .ibooks bækurnar. Ef það er einhver rafbókagerð sem gæti mögulega orðið Betamax þessa stríðs þá er það þessi.

Raunverulega hættan fyrir neytendur er sú að afritunarvarnirnar geri það að verkum að fjárfestingar í rafbókum verði álíka góðar og að kaupa Betamax spólur. Meira af þeim seinna.