Afritunarvarnir eru verri en gagnslausar

Þegar ég hef sagt að afritunarvarnir séu gagnslausar þá er ég stundum spurður hvort ég taki ekki of djúpt í árinni. Svarið er nei. Afritunvarnir eru nefnilega í raun verri en gagnslausar. Þær skemma fyrir þeim útgáfufyrirtækjum sem nota þær.

Fólk hefur sagt þetta oft áður en ég segi þetta aftur. Þegar þú selur einhverjum rafbók með afritunarvörn þá þarftu að láta kaupandann hafa lykilinn um leið til þess að hægt sé að lesa hana. Það eina sem þarf að gera er að finna lykilinn og ef það er eitthvað sem netið hefur kennt okkur þá er það að það er alltaf einhver tilbúinn að leita að lyklinum. Það er síðan búið til forriti sem getur brotið afritunarvörnina fyrir hvern sem er.

Það er frægt að Eiríkur Örn keypti sér rafbók eftir Hallgrím Helgason og tók afritunarvörnina af á tuttugu og fimm mínútum – næst þegar hann gerir þetta tekur það ekki nema hálfa mínútu. Það var ekki leyndarmál að hægt væri að brjóta upp afritunarvörnina því það stendur á Wikipediusíðunni um hana. Það sem EÖN gerði var að mínu fyllilega siðferðislega réttlætanlegt þar sem markmiðið var eingöngu að lesa bókina. Hann á nefnilega Kindle rafbókalesara – eins og rúmur helmingur allra þeirra sem hala niður bækur af Rafbókavefnum – og það tæki getur ekki opnað rafbók frá Forlaginu án þess að henni sé breytt. Þarna sjáum við hvernig afritunarvarnir eyðileggja fyrir útgáfufyrirtækjum. Ef engin væri afritunarvörnin þá væri hægt að selja öllum þessar rafbækur því auðvelt væri að setja þær á önnur form.

Verra er þó væntanlega flækjustigið sem fylgir afritunarvörninni. Fyrir fólk sem er ekki mjög tölvuvant þá er ekki einfalt að nota forritið sem sér um afritunarvörnina. Það krefst svipaðrar tölvukunnáttu að nota það forrit og að taka afritunarvörnina af. Munurinn er að flækjan er leyst þegar afritunarvörnin er fjarlægð en ef þú notar umsjónarkerfið fyrir vörnina þá er þetta vesen til lengri tíma. Þar að auki ertu háður því erlenda fyrirtæki sem framleiðir vörnina. Hvað gerist ef það fer á hausinn? Þú þarft líka passa upp á notendanafn og lykilorð til að geta varðveitt bækurnar.

Hvað gerist síðan ef það fást ekki lengur lestæki sem styðja afritunarvörnina sem nú læsir íslenskum rafbókum? Hvað ef önnur vörn verður ráðandi en þessi úrelt?
Þetta er ekki gott kerfi til framtíðar. Við viljum ekki eiga bækur í nokkra mánuði eða nokkur ár heldur áratugi. Við viljum jafnvel að afkomendur okkar erfi þær. Er það mögulegt með afritunarvarðar bækur?
Eitt þekkt vandamál með afritunarvarnir er að fólk hefur glatað til dæmis tónlist sem það hefur keypt löglega af því að það er að kaupa ný tæki. Ég hef lent í því. Miðað við orðalagið í upplýsinguna um afritunarvörnina hjá íslenskum útgefendum þá ætti þetta ekki að vera vandamál því það er talað um að flytja rafbækur milli tækja frekar en að hægt sé að skrá þær á fimm tæki í heild (þær heimildir yrðu fljótt nýttar).

Það eru ekki bara forrit sem gera fólki kleyft að fjarlægja afritunarvarnir. Það eru til vefsíður sem bjóða upp á slíkt. Þær eru mjög einfaldar. Bókin er send inn og þú færð hana ólæsta til baka. Eru þessir vefsíðuumsjónarmenn bara að reyna að vera næs við eigendur læstra bók eða gæti verið að bækurnar sem eru sendar þarna inn séu hirtar og endi í sjóræningjadreifingu?
Fólk vill stjórna því sem það gerir við eigur sínar. Það á líka við um rafbækur. Afritunarvarnir koma í veg fyrir að fólk geti gert það. Ef þú færð opna rafbók geturðu sjálfum þér um kennt ef þú glatar henni. Þú hefðir getað fundið varanlega geymslu fyrir hana. Ef þú færð afritunarvarða rafbók og glatar henni þá er það söluaðilanum um að kenna því þú hafðir aldrei möguleika á að tryggja varanlega varðveislu.

Það er til fólk sem er svo strangheiðarlegt að það myndi aldrei reyna að fjarlægja afritunarvörnina af rafbókunum sínum – allavega ef það hefur ekki áður lent í því að glata afritunarvörðu efni. Þetta er fólkið sem mun fara illa út úr því að kaupa sér afritunarvarðar bækur – annað hvort vegna þess að það getur ekki varðveitt bókina til lengri tíma eða af því að það fylgir íþyngjandi kerfi með sem gerir umsýsluna með rafbækurnar erfiðari en þörf er á.

Ólíkt strangheiðarlega fólkinu þá er væntanlegum sjóræningjum alveg sama þó það taki afritunarvörnina af. Þeir gera það hugsanalaust. Búmm. Farin í deilingu. Það þarf bara að aflæsa einni rafbók til að búa til hundrað þúsund afrit.

En það þarf í raun ekki rafbækur til að búa til rafrænar sjóræningjaútgáfur því það er engin afritunarvörn á prentuðum bókum. Ég spáði því nýlega á fyrirlestri að það væru til nemendur í framhaldsskólum sem væru farnir að nota sér þá aðferð að skanna inn bækur og ljóslesa textann. Þetta er algeng aðferð í heimi bókasjóræningja og ég tel að framhaldsskólanemar séu nógu snjallir til að beita henni. Ég tek fram að ég tel ekki að framhaldsskólanemar séu óheiðarlegri en áður heldur að þeir séu bara eins og skólafélagar mínir sem ljósrituðu bækur til að þurfa ekki að kaupa þær.

Af hverju hafa útgefendur endalausar áhyggjur af því hvað fólkið sem myndi ekki kaupa rafbókina hvorteðer gera í stað þess að gera vel við þá sem eru tilbúnir að kaupa af þeim bókum? Rafbók með afritunarvörn er verri vara en rafbók án varnar. Til þess að bæta gráu ofan á svart þá virðist þessum kostnaði vera velt beint á neytandann. Sumsé verri vara á hærra verði.