Réttur minn og greinaskrif mín

Ég fékk að sjá þessa kápumynd í dag. Þetta er greinasafn frá þeim sem héldu erindi á málstofu á SIEF ráðstefnunni í Lissabon í fyrra. Þarna verð ég meðal annars með grein um siðferði í Eve Online. Ég verð að játa að ég er sérstaklega ánægður með greinina sem er að bæði byggð á því sem kom fram í meistararitgerðinni minni og pælingum um uppnámið sem varð í leiknum í fyrra.

Ég þurfti að gefa leyfi fyrir útgáfunni. Ég þurfti ekki að gefa neitt eftir af mínum höfundarétti. Ég mætti í raun setja greinina á netið á morgun. Sem ég ætla reyndar ekki að gera. En hver veit með framtíðina. Ég vil endilega gefa þeim tækifæri á að selja bókina en ég vil líka hafa greinina aðgengilega svo hún sé lesin. Ég veit ekkert hve auðvelt verður að kaupa þessa bók. Ég stakk upp á rafbókaútgáfu en fékk óljós svör. Vonandi eru menn að velta því fyrir sér.

Ég hef þrisvar áður birt svona “alvöru”. Tvisvar á Íslandi og einu sinni á Írlandi. Ég man varla eftir því að nokkuð hafi verið rætt um höfundaréttarmál. Reyndar hafa greinarnar sem ég birti í Rannsóknir í félagsvísindum verið settar á netið (sem hluti af bókunum í heild) sem mig grunar að sé frekar vafasamur gjörningur frá sjónarmiði höfundaréttar. Þegar ég sendi greinarnar til birtingar var það í þeim skilningi að það væri fyrir prentaða útgáfu. Ég er reyndar hlynntur því að þetta efni sé aðgengilegt og mig grunar að nær allir sem eiga þarna efni séu það líka. En mér finnst líka að það ætti að passa betur upp á hvernig þetta er gert.