Í hádeginu hitti ég Sigrúnu og við fórum, eins og svo oft áður, að ræða höfundaréttarlög (alltaf gott að hafa laganemi í svona spjalli). Spjallið barst að sæmdarrétti (sem aldrei fellur úr gildi) og að hve miklu leyti mætti breyta verkum látinna höfunda (sem hafa klárað líf+70 ár pakkann), t.d. í þeim tilgangi að aðlaga stafsetningu að nútímahorfi. Ég hef nokkrum sinnum staðið í slíku og alltaf reynt að halda því sem ég tel sérvisku höfunda en annars að gera textann sem læsilegastan.
Talið barst þá að íslenskum fornbókmenntum. Ef við værum hörð á sæmdarréttinum væri hægt að segja að óhófleg breyting á stafsetningu þessara rita brjóti gegn þessum rétti. Þá kemur reyndar inn spurningin um rétt hins óþekkta „höfundar“ ritanna. Á óþekktur höfundur sæmdarrétt? Þá gæti maður haldið því fram að Heimskringla sé vernduð sæmdarrétti þar sem mikil sátt er um að eigna Snorra Sturlusyni það verk. Við gætum jafnvel komist í þá fráleitu stöðu að verja stafsetninguna á Egils sögu út frá því að Alþingi hefur eignað Snorra það verk líka.
En það má líka líta til þess að við höfum enga „frumtexta“ sem við getum sagt að séu „réttir“. Þannig að það gæti verið vafasamt að verja stafsetningu sem er ekki einu sinni komin frá „höfundunum“.
Þessar pælingar eru í sjálfu sér ekki nýjar því stjórnvöld reyndu að verja opinbera stafsetningu á Íslendingasögunum á sínum tíma. Ragnar í Smára og Halldór Laxness ögruðu þeim lagasetningum með því að gefa út rit með nútímastafsetningu og í Hæstarétti voru þeir sýknaðir á grundvelli prentfrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar.
Alþingi mátti ekki setja lög sem takmörkuðu prentfrelsi. En má framfylgja lögum um sæmdarrétt eða brjóta þau gegn ákvæðum um tjáningarfrelsi samkvæmt núgildandi stjórnarskrá?
Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.
Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.
Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.
Getur það talist nauðsynlegt að verja sæmdarrétt látinna höfunda gegn tjáningarfrelsinu, samræmist það lýðræðishefðum og hve langt má þá ganga? Sjálfur get ég ekki einu sinni tekið undir að höfundaréttur sem gildir líf+70 ár geti talist nauðsynlegur á nokkurn hátt og það væri satt best að segja gaman að láta reyna á slíkt fyrir dómstólum. Ég tel þar að auki algeran óþarfa að eltast við sæmdarrétt þeirra sem eru komnir út fyrir líf+70 rammann. Reyndar tel ég samt að maður eigi nú alltaf að geta höfundar, sama hve löngu dauður hann er.