Ég sé ekki fyrir mér að ég myndi finna fyrir einhverri notalegri tilfinningu þó ég myndi krossa við Ara Trausta á laugardaginn. Mér þykir hann vissulega fremstur frambjóðenda en hann á ekki séns. Leiðinlegt en ég jafna mig.
Kosningakerfið er einfaldlega gallað. Forgangsröðun á frambjóðendum væri mikið betri kostur. Þá gæti maður valið þann sem manni þætti bestur í efsta sætið en þann sem manni þykir næstbestur þar á eftir vitandi að atkvæði manns muni ekki falla niður dautt.
Það ætlar enginn að segja mér að það hefði ekki verið betra ef kjósendur Ralph Nader hefðu ekki frekar kosið Gore. Best hefði þó einmitt verið að hafa forgangsröðun á frambjóðendum til í bandarísku forsetakosningunum. Þá hefði einmitt þriðji valkosturinn allt í einu möguleika.
Ef ég myndi kjósa Ara Trausta þá væri ég einfaldlega að segja að ég vildi frekar þann versta en þann næstbesta. Ég hef aldrei fallið fyrir slíkri speki.
Samviska mín verður hrein á kjördag (og næsta kjörtímabil) vitandi að ég reyndi það sem ég gat til að koma Ólafi frá. Ég kýs sumsé með samvisku minni.