Philip Roth fattar ekki Wikipediu

Í New Yorker er grein frá rithöfundinum Philip Roth þar sem hann gagnrýnir Wikipediu. Hann segir frá því að hann hafi (í gegnum ævisöguritarasinn) reynt að leiðrétta villu í færslu sem fjallar um bók hans en verið sagt að hann væri ekki áreiðanleg heimild um eigin bók. Á Wikipediu var sagt frá því að ýmsir teldu að umrædd bók væri byggð á ævi ákveðins einstaklings. Roth neitar því í greininni. Hann segir líka frá öðrum manni sem hann segir söguna byggða á.

Á Wikipediu er hægt að sjá þessar umdeildu breytingar sem gerðar voru á færslunni. Þegar ævisöguritari Roth “lagfærði” færsluna skrifaði hann:

I have removed the reference to Anatole Broyard, at Philip Roth’s insistence. I am his biographer.

Þegar breytingin var tekin til baka þá skrifaði hann:

Once again, I removed the reference to Anatole Broyard. It is wholly inaccurate and therefore pointless. I am Roth’s biographer, and have removed it at his request.

Þetta minnir kannski á atriðið í Annie Hall þegar Woody er að hlusta á leiðindasegg fara með rangfærslur um Marshall McLuhan og dregur fram kallinn sjálfan til að hrekja vitleysuna. Það er hins vegar einn augljós munur: Enginn á Wikipediu getur vitað eða staðfest að einstaklingurinn sem titlar sig ævisöguritara Roth hafi nokkur tengsl við manninn. Það er því 100% rökrétt ákvörðun að eyða breytingum hans.

En það eru fleiri ástæður fyrir því að ég tel að Wikipedia sé hér í rétti. Á vefnum gilda nefnilega reglur. Ein mikilvæg er að maður eigi ekki að vera að krukka í færslum þeirra sem maður tengist náið. Það að vera á vegum einhvers að breyta Wikipediufærslum er augljóslega frekar náin tengsl. Kannski virðist þetta fáránlegt við fyrstu sýn en allir hljóta að sjá hættuna á því að fólk fari að fegra færslur um sjálfan sig og sína nánustu.

Sú ástæða sem mér þykir mögulega mikilvægust í öllu þessu er sú að það voru engar staðreyndavillur í umræddri færslu. Það var vísað í skrif ákveðinna bókmenntagagnrýnenda um þessa bók. Þeir töldu að hún væri byggð á ævi ákveðins manns en Roth segir hana byggð á ævi annars manns. Wikipedia kom hvergi nærri þessari (meintu) rangtúlkun að öðru leyti en því að vísa í hana. Það er algerlega fráleitt að ætla að svara túlkun bókmenntagagnrýnenda með því að hreinsa út vísanir í þá á Wikipediu.

Roth hefði einfaldlega átt að skrifa grein um manninn sem varð honum innblástur fyrir bók sína og svara þannig þeim bókmenntagagnrýnendum sem hann taldi á rangri leið. Hann hefði síðan getað bent Wikipediuverjum á þá grein. Roth virðist annað hvort ekki fatta að Wikipedia verður að ganga út frá ákveðnum reglum eða að honum finnst að þessar reglur eigi ekki að gilda um hann.