Nú hef ég sjálfur ákaflega litla skoðun á aðild Íslands að ESB. En ég er í flokki sem hefur barist gegn aðild vegna þess að a) ESB er markaðsdrifið fyrirbæri og b) að í raun stendur ESB í vegi fyrir almennilegri alþjóðahyggju. Ástæðurnar eru oft fleiri og dýpri en þessar sem ég nefni tel ég í samræmi við þau gildi sem við viljum almennt að flokkurinn hafi. Það má síðan ekki gleyma að í VG er líka fullt af fólki sem er hlynnt inngöngu í ESB.
Í VG hefur síðan komið fólk, sérstaklega fyrir síðustu kosningar, sem er á móti ESB aðild vegna þess að það er þjóðernissinnað (ekki rasískt en rembingslegt oft á tíðum). Ég hef enga samúð með síðastnefnda hópnum og fagna því þegar það yfirgefur flokkinn.
Ég veit reyndar að sumir rugla minni skoðun á því að það sé nauðsynlegt að tryggja innlenda matvælaframleiðslu við þjóðerniskennd. Sú skoðun mín hefur hins vegar ekkert með þjóðerniskennd að gera og ég tel ekki að íslenskur matur sé betri en annar matur. Ég tel það einfaldlega skyldu okkar gagnvart sjálfum okkur og umheiminum að vera okkar sem mest næg um mat. Hér spilar inn hugmyndir um umhverfisvernd, flöktandi matvælaverð og margt fleira.
Ég sakna fólksins sem yfirgefur VG af því að það telur flokkinn ekki nógu vinstrisinnaðan. Ég játa að söknuðurinn er meira á mínum forsendum en þeirra. Mér þykir þetta fólk hafa gert vel í að ýta flokknum til vinstri á köflum þó það hafi kannski haft óraunhæfar væntingar um hve langt til vinstri það væri hægt að koma Samfylkingunni í stjórnarsamstarfinu.