Fjölskylduupplýsingar á bókaviðgerðarnámskeiði

Ég var á bókaviðgerðarnámskeiði í dag. Það er ekkert aðalatriði en þar sem ég var að líma eina bók þurfti ég að grípa eitthvað svona ruslblað til þess að taka aukalímið. Ég var að skera blaðið þegar ég tek eftir því að nöfnin þar eru kunnugleg. Ég skoða betur og sé að þar er verið að tala um ættarmót 2005 í Svarfaðardal – sem passar sko. Ég athugaði betur og sá að þarna voru líka yfirlit yfir systkinabarnamót í fjölskyldu Guðmars afa (kynslóð mömmu). Það fyrsta var víst 1983. Ég spurði að sjálfsögðu hvaðan blöðin væru og kom þá í ljós að þau höfðu verið prentuð út í Borgarbókasafninu Árbæ. Ætli það hafi ekki einhver ættingi prentað óvart tvö eintök og þar sem Borgarbókasafnið er duglegt að endurnýta pappírinn þá endaði þetta í mínum höndum. Frekar mögnuð tilviljun en maður má alveg muna að það eru allar líkur á því að ótalmargir lendi í óvanalegum atburðum.