Ég held að ég hafi hvergi nefnt að ég ætla ekki að kjósa besta oddvitann í mínu kjördæmi. Það er nefnilega hann Vésteinn Valgarðsson hjá Alþýðufylkingunni. Ef ég héldi að hann hefði einhvern séns á að komast inn myndi ég kjósa hann.
En það leiðir mig að kosningakerfinu. Ég er ekkert rosalega spenntur fyrir hreinum einstaklingskosningum. Ég held að við höfum séð það í stjórnlagaþingskosningunum að það komst tvenns konar fólk að, þeir sem voru frægir fyrir og þeir sem eyddu nægilega miklu í kosningabaráttuna. Við sáum líka að íslenskir fjölmiðlar réðu ekkert við verkefnið.
En hvað sem því líður þá myndi ég samt vilja kjósa einstaklinga og ég held að það þyrfti ekki að henda út flokkakerfinu til að opna á einstaklingskosningar. Það mætti bjóða upp á þann möguleika að maður gæti gefið frambjóðendum úr fleiri en einum flokki atkvæði sitt. Þetta væri líka jákvæðara kerfi en það sem við búum við með útstrikunum. Augljóslega væri maður líka voðalega til í að gefa frambjóðendum úr öðrum kjördæmum atkvæði sitt.
Man einhver hvernig tillögur Vilmundar Gylfasonar þessi mál voru?