Tæknin mótar (tónlistar-) menninguna

Þeir sem lesa þetta blogg verða ekki hissa þegar ég segi að ég sé heillaður af því hvernig tæknin mótar menninguna. Það er ekki hægt að skilja menningarsköpun hvers tíma án þess að þekkja tæknina sem hún byggðist á.

Sögu dægurlagatónlistar á 20. öld er t.d. ekki hægt að skilja án þess að vita eitthvað um þá útgáfumöguleika sem fólk hafði á hverjum tíma. Fólki fyrirgefst til að mynda að halda að þriggja mínútna lög hafi orðið staðlað form vegna þess að það hentaði útvarpsstöðvum. Skýringuna er hins vegar frekar að finna í hljómplötutækninni. Á 78 snúninga (10″) plötum komust ekki fyrir nema um þrjár mínútur af tónlist.

Þeir sem hlusta á gamlar upptökur af blús, t.d. Robert Johnson, vita að lögin eru yfirleitt tvær til þrjár mínútur. Mörg lög eru akkúrat þrjár mínútur. Svona spiluðu þeir ekki lögin á sínum djúkdjojntum. Þar gátu þessi lög verið heillöng. En fyrir upptöku þá þurfti að klippa harkalega niður. Tónlistin var jafnvel spiluð hraðar til að lagið passaði. Ef lögin voru aðeins lengri en þrjár mínútur þurfti 12″ plötu sem var augljóslega dýrari í framleiðslu. Það kom fyrir að lög voru lengri en þá var þeim skipt á tvær hliðar.

Þegar hljómplötutækninni fleygði fram var hægt að hafa meiri tónlist á hverri hlið. Þær voru 45 og 33⅓ snúninga plötur. Ef sú tækni hefði strax verið til staðar má velta fyrir sér hvort lög á plötum hefðu almennt verið lengri. Staðlaða hljómplötuformið varð 12″ og 33⅓ snúninga. Sú plata tók um 22 mínútur á hvorri hlið en fólk var vant stuttum lögum og því voru sett mörg lög á hverja hlið. Þetta gerðist í raun ekki löngu áður en Bítlarnir fóru stað. Þetta er tæknin sem mótar þeirra tónlist til að byrja með. Bítlarnir og aðrir tóku síðan að lengja lögin aftur (og leika sér að tækninni t.d. með endalausri lúppu í lok plötu).

En það var ekki hætt að gefa út plötur með einu lagi á hverri hlið. Smáskífur urðu til á sama tíma. Þær voru 7″ og 45 snúninga. Mörgum finnst óskiljanlegt að fólk hafi keypt smáskífur í stað þess að kaupa bara hljómplöturnar. Það eru margar ástæður en ein er sú að gæðin voru (oft) meiri á 45 snúninga plötum en 33⅓. Þannig að ef þú vildir njóta Bohemian Rhapsody þá var eins gott að kaupa smáskífuna en ekki bara plötuna. Smáskífurnar gátu verið með 6 mínútur af tónlist en Bohemian Rhapsody er um 5:55 mínútur að lengd. Hefði lagið orðið lengra ef Freddie hefði haft „stærri striga“ til þess að mála á? Ég veðja að hann hafi verið að vanda sig að láta þetta passa. Aðeins fyrr slepptu Led Zeppelin því alveg að gefa út Stairway to Heaven á smáskífu en það var einmitt of langt fyrir slíka útgáfu.

Geisladiskar gátu upphaflega tekið allt að 74 mínútur af tónlist – lengdin miðaðist að sögn við að upptaka af níunda sinfóníu Beethoven gæti komist þar fyrir (tónlistin mótar tæknina!). Til að lokka kaupendur voru aukalög sem ekki voru á plötunum oft sett á diskana. Seinna varð það tíska að nota aukatímann til að fela leynilög. Þau eru t.d. á Nevermind með Nirvana og Smash með The Offspring. Þessi aukalög eru síðan óþolandi þegar maður er að setja þessa diska á mp3 form.

Útgáfa á netinu hefur nær engar tæknilegar takmarkanir en hún hefur erft hefðir fyrri tækniforma. Menn gefa enn út plötur þó þær endi ekki á diskum eða plötum (hvað þá kassettum sem ég hef sleppt alveg). Tónlistarfólk er oftast að halda sig innan tímaramma sem er mótaður af eldri tækni. Það eru augljóslega undantekningar en svona er þetta almennt. En hve lengi stendur þetta? Munu komandi kynslóðir frelsast alveg undan þessum takmörkunum eða verða þessar hefðir áfram til staðar?