Hvers vegna útsendingarsjónvarp?

Simmi og Jói eru að taka yfir minn gamla vinnustað á Krókhálsi og setja upp tvær sjónvarpsstöðvar. Ef ég skil þetta rétt á þetta að verða útsendingarsjónvarp og ég skil ekki þá pælingu í dag. Slíkt krefst miklu meiri yfirbyggingar heldur en er raunverulega þörf á.

Í dag trylltust unglingar í Smáralind yfir einhverjum gaur sem ég get ekki ímyndað mér að margir yfir 25 ára hafi heyrt um. Allavega ekki ég. Hann gerir einhvers konar örmyndbönd – Twitter í videoformi. Það segir okkur eitthvað en flest erum við ekki 15 ára.

Mörkin milli sjónvarps og tölvu eru að hverfa. Ef sjónvarpið er ekki tölva nú þegar þá er hægt að fá smátæki sem gerir það að tölvu. Þá er YouTube komið í sjónvarpið þitt. Smá fiff og þú ert kominn með Netflix. Meira fiff og þú ert kominn með BBC. Og svo framvegis. Það þarf engan snilling til að sjá að Simmi og Jói eru að meta framtíð íslensks sjónvarps rétt með því að búa til íslenskt sjónvarpsefni en þeir gætu gert það án þess að fara í gamla dreifingarpakkann.

Í dag er hægt að búa til sjónvarp með tölvu og myndavél. Það er margt betra til en í raun duga forrit sem fylgja með Windows. YouTube getur síðan verið dreifingaraðilinn þinn. Það gilda sömu forsendur og með efni í opinni dagskrá þannig að þú þarft að hafa auglýsingarnar með ef þú vilt einhverja peninga. Lýðfjármögnun er líka valkostur.

Ef það þarf minni yfirbyggingu og allt kostar minna þá er líka hægt að þrengja áhorfendahópinn. Það þarf ekki lengur að höfða til fjöldans heldur er hægt að hafa efni sem tiltölulega fáir hafa mikinn áhuga á.

Dauði dagskrársjónvarps þýðir líka frelsi frá hefðbundnum tímatakmörkunum. Það þarf ekki lengur að láta efnið passa í eitthvað hólf. Það er hægt að leyfa efninu að njóta sín, það þarf hvorki að teygja það né þarf að klippa burtu gullin andartök til þess að dagskráin riðlist ekki.

Það er pláss fyrir meira íslenskt sjónvarpsefni en ekki ef því er íþyngt með gamla dagskrárútsendingarsjónvarpsmódelinu.