Nokkrum árum eftir að Freddie dó skrifaði Jim Hutton elskhugi hans, eða eiginmaður, bók um samband þeirra. Þegar bókin kom upprunalega út olli hún mikilli gremju hjá Queen “vélinni”. Fólk talaði eins og Jim hefði svikið Freddie. Fólk var hneykslað á meintum grófum kynlífsslýsingum og hvaðeina. Blaðamaðurinn sem var meðhöfundur Jim var ásakaður um að hafa ýkt og skrumskælt. Bókin var sumsé talin hálfgert slúðurpressurit og ég sá enga ástæðu til þess að lesa hana.
Ég var síðan á Amazon um daginn þegar bókin poppaði upp og hún var það ódýr að ég keypti hana strax. Ég las hana mjög fljótt – hún er ekki mjög löng.
Ég beið eftir að sjá hvað hefði hneykslað fólk en fann ekkert. Kannski að einhverjir hafi orðið miður sín að það er nefnt að þeir Freddie hafi stundað kynlíf. Það var ekki mikið grófara en það. Það sem maður sér að gæti hafa farið fyrir brjóstið hjá fólki er hvernig talað er um Mary vinkonu Freddie sem erfði flestar eigur hans. Það er þó í samræmi við flestar aðrar lýsingar sem ég hef af því uppgjöri sem fór fram eftir dauða Freddie. Hún kom ekki vel fram við vini hans og sérstaklega ekki vel fram við Jim. Þar sem hún á hlut Freddie í Queen þá fattar maður hvers vegna allt í kringum hljómsveitina brást illa við bókinni.
Í raun er bókin bara ástarsaga. Hún byrjar af alvöru árið 1985 og fjallar um samband Freddie og Jim. Það eru nokkrir fróðleiksmolar tengdir tónlistinni sem ég hafði ekki heyrt áður en ekkert rosalega mikið. Það sem situr helst eftir er hve dapurlegur þessi feluleikur var sem þessir menn þurftu að vera varðandi samband sitt. Sambandið var reyndar opinberað en þó Jim hafi komið út úr skápnum við fjölskyldu sína í kjölfarið þá var Freddie enn í felum. Þó það sé ekki sagt hreint út í bókinni þá hef ég lengi skilið það þannig að hann hafi ekki viljað að faðir hans vissi af þessu enda var hann strangtrúaður Parsi. Hvort pabbi hans vissi það hvort eð er veit ég ekki en marga grunar að mamma hans hafi verið búin að “sætta” sig við það.
Bókin er líka góð áminning um gildi hjónabands samkynhneigðra því eftir dauða Freddie hafði Jim ekkert í höndundum. Þeir höfðu skipst á hringum en engin skjöl eða neitt.
Jim lést fyrir nokkrum árum og ég er hálffúll yfir því að hafa trúað róginum um bókina og beðið svona lengi með lesturinn.
En Mr. Mercury (endurútgefin sem Freddie Mercury) eftir Peter Freestone er ennþá besta bókin um Freddie.