Fölsuð vara á Ali Express

Ég hef eins og margir verslað dáltið við kínversku vefverslunarmiðstöðina Ali Express. Ég hef almennt verið ánægður. En ég pantaði líka minniskort og lykla sem voru vafasamir. Ég gerði þau mistök að athuga þessar vörur ekki strax og lenti því í að gögn sem ég var með á þeim spilltust. Þegar það gerðist fann ég forrit sem heitir H2testw sem prufar minniskort og lykla. Það kom í ljós að 8 GB kortið sem ég keypti var í lagi en 64 GB minniskortið og 64 GB minnislykillinn voru með innan við tíunda þess pláss sem auglýst var.

Ég hafði því miður þegar staðfest að vörurnar væru komnar og hafði misst af tækifærinu að opna “deilu” við seljandann. En í gær fékk ég annan 64 GB minnislykil (sem ég hafði pantað áður en ég áttaði mig á hinu). Ég tékkaði og þá kom í ljós að plássið var falsað. Ég opnaði strax deilu við seljandann, heimtaði endurgreiðslu og neitaði að endursenda kortið. Ég fékk nokkrum klukkutímum seinna tilkynningu um að ég fengi endurgreiðslu.

Það er rétt að taka fram að það er hægt að nýta þessi fölsuðu kort og lykla. Ef maður formatar bara nýtilegt svæði á þeim þá virkar það. Ég ætla samt ekki að geyma neitt verðmætt á þeim.

Það er líka rétt að taka fram að ég hef áður fengið endurgreiðslu frá Ali Express vandræðalítið. Þá hafði ég fengið frá þeim usb-sjónvarpskort sem var ekki með réttu tengi. Ég náði reyndar síðan að redda réttu tengi með smá fiffi þannig að það var lítið mál.

Að lokum er rétt að benda á að samkvæmt mínum heimildum eru minniskort og lyklar þær tölvuvörur sem mest álagning er á hér á landi.