Windows XP er dautt – Linux Mint er málið

Á heimilinu voru fyrir stuttu tvær tölvur með Windows XP stýrikerfinu. Mér hefur alltaf líkað við það og því var lítil hvöt fyrir mig að skipta. En nú er Microsoft að slátra XP. Þar sem þessar tölvur eru ekkert rosalega öflugar, önnur frá 2007 og hin EEE Box (sem þurfti raunar strípaði útgáfu af XP), þá þótti mér ekkert góð hugmynd að fara í nýrra Windows. Það hefði líka kostað peninga. Þá er auðvitað augljósa svarið Linux.

Ég hef lengi haft eina tá í Linux. Litla EEE netbook tölvan (talvan) sem ég notaði síðustu árin í Háskólanum er með Lubuntu sem er strípuð útgáfa af Ubuntu. Síðan erum við flest komin með eitthvað Linux (Android? Kindle?) á heimilið.

En nær samdóma álit er að Linux Mint sé besta kerfið til að setja upp á tölvur sem eru með deyjandi Windows XP. Ég valdi útgáfu af Linux Mint sem heitir Mate. Hún svínvirkaði á tölvurnar tvær. Reyndar var ég svo ánægður að ég er búinn að setja þetta líka á nýjustu tölvu heimilisins því mig langaði að prufa þau mörgu frábæru forrit sem maður getur fengið ókeypis. Mér líður svo rosalega vel með þetta. Mér hefur þótt Windows 7 svo þungt og fráhrindandi. En Linux Mint er bara eins og einfaldur og stabíll draumur.

Það er algjörlega augljóst að þeir sem eru með gamlar vélar sem keyra á XP ættu að prufa Linux og þá helst Linux Mint. Það fylgir ókeypis „Office“ pakki (Libre Office) sem er ákaflega þægilegur í notkun þó hann sé aðeins öðruvísi en Microsoft týpan. Það eiginlega aldrei vandamál að opna Microsoft skjöl þarna og ég notaði Libre Writer um árið þegar gamla Microsoft Office mitt gat ekki opnað skjal úr nýja Word. Það fylgir Firefox með og auðvitað hægt að setja fleiri vafra inn. Einnig fylgir með GIMP myndvinnsluforritið sem ég hef undanfarin ár notað líka í Windows því það er bara rosalega gott (og ókeypis!).

Þetta er sumsé rosalega einfalt fyrir fólk sem er bara að gera einfalda hluti með tölvurnar sínar. Þeir sem gera eitthvað flóknara ættu að eiga nokkuð auðvelt með að læra að gera þá flóknu hluti í Linux.

Þeir sem vilja prufa Linux Mint geta gert það án þess að setja það upp. Það er nefnilega hægt að brenna stýrikerfið á dvd disk (nokkuð einfalt) eða af USB lykli (aðeins meira maus) og sjá hvernig það virkar. Það er auðvitað mun hægvirkara þannig en þegar það er raunverulega búið að setja það upp en svona getið þið séð hvernig samleið Linux Mint á með tölvunni ykkar. Þið tapið engu á að prufa (nema einum DVD disk en þið getið huggað ykkur við að þið hafið stutt höfundarétthafasamtök á Íslandi sem fá einhverjar krónur af hverjum seldum disk).

0 thoughts on “Windows XP er dautt – Linux Mint er málið”

Skildu eftir svar