Í gær horfði ég á lokaþátt How I met Your Mother. Ef þú hefur ekki séð þáttinn ættirðu ekki að lesa þetta. Hættu að lesa núna. Hér á eftir eru spoilerar.
Ég er búinn að lesa þónokkuð af gagnrýni og svo virðist sem að ég sé í minnihluta af þeim sem var ánægður með endinn.
Einn algengasti punkturinn í gagnrýninni er að níunda serían hafi fjallað um brúðkaup Barney og Robin og það hafi allt verið eyðilagt með því að upplýsa að hjónaband þeirra gangi ekki upp. Þó mér hafi reyndar þótt þessi sería slöpp á köflum þá man ég ítrekað að ég hugsaði að samband Barny og Robin væru ekki góð fyrir hvort annað og þau voru bæði í vafa um hvort brúðkaupið væri góð hugmynd. Þar af leiðir að örlög hjónabandsins voru í góðu samræmi við það sem áður hafði á gengið. Einnig hef ég séð fólk kvarta yfir því að Robin og Barney hafi skilið af því að Barney náði ekki þráðlausu netsambandi á hótelherbergi. Þar lítur fólk framhjá því að rifrildi snúast ekkert endilega um það sem er verið að rífast um. Auðvitað var þráðlausa netið bara einhver punktur sem þau tóku syrpu á en ekki rót vandans.
Stóri punkturinn í gagnrýninni er að fólki þótti móðirin vera í alltof miklu aukahlutverki og að endirinn sjálfur hafi ekki verið í samræmi við samband Ted og Robin í þáttunum. Varðandi móðurina þá er þetta sama gagnrýni og hefur verið í gangi frá upphafi. Hún var MacGuffin þáttaraðarinnar. Börnin segja þetta beint út. Það að segja þessa sögu er til þess að útskýra hina flóknu baksögu hans og Robin með þeim fyrirslætti að það fjalli um hvernig hann kynntist móður þeirra. Eins fannst mér að níunda serían fjallaði ekki um að Ted væri í raun búinn að komast yfir Robin heldur þvert á móti að hann hefði aldrei gert það en setti tilfinningar sínar til hliðar vegna þess að næstbesti vinur hans er að fara að giftast henni. Hann sættist á að styðja þau og gat þar með fallið fyrir móðurinni.
Ég stefni á að horfa á þættina alla aftur og hlakka til að sjá hvort það setur lokaþáttinn í betra eða vera samhengi.