Ég átti í þrjú ár Kindle Keyboard. Hann dó í vor og ég hef verið að leita mér að nýjum í staðinn.
Rafbókalesarinn sem mig hefur dreymt um:
- Rafblek (það er grundvöllur þess að geta lesið lengi án þess að þreytast í augunum)
- Alvöru Android stýrikerfi (svo maður sé ekki háður t.d. Amazon og geti um leið sett inn önnur gagnleg forrit)
- Flettihnappar báðum megin (mér þykir verra að fletta á snertiskjám)
- Ekki of stór eða þungur
- Framlýsing sem hægt er að kveikja á eftir þörfum (fann það t.d. á ferðalögum í vor og sumar að maður getur ekki treyst því að hafa vel staðsetta lampa þar sem maður er að gista)
- Tekur minniskort
Það hafa komið fram nokkrir Android lesarar en flestir hafa fallið á einhverju prófi. Þeir hafa oftast verið hægvirkir. Það er erfitt að setja upp forrit í þeim og sum virka bara ekki (auðvitað mun aldrei virka að nota forrit sem þurfa virka myndvinnslu). Síðan hefur oftast vantað flettihnappana eða þá að það hafa bara verið flettihnappar öðrum megin.
Fyrir um mánuði síðan byrjaði fólk að tala um nýjan rafbókalesara sem gæti allt sem ég bað um. Hann heitir Icarus Illumina e653. Hann fékk ákaflega góða dóma og fólk var voðalega spennt. Síðan kom í ljós að þetta var bara evrópska útgáfan af rafbókalesara sem hefur verið á markaði síðan í júní í Kína. Sá heitir Boyue T61 og er mun ódýrari. Hann fellur hins vegar ekki undir ábyrgðarreglur ESB (en mig grunar að svoleiðis sé hvort eð er vesen þegar enginn þjónustuaðili er á Íslandi).
Ég fann Boyue T61 til sölu á Ali Express á 117$ með ókeypis sendingu til Íslands. Það er hræódýrt. Það átti líka að fylgja með hulstur sem kom raunar ekki. Allavega stökk ég á þetta. Það er rétt að nefna að það er hægt að fá mjög svipaðan lesara, Boyue T62, á svipuðu verði. Sá er með meira geymslupláss (sem skiptir mig engu máli þegar ég er með 32 gb minniskort), stærra batterí (sem gæti skipt máli), er með hljóðúttaki (ég notaði það örsjaldan á Kindlinum) og er örlítið stærri og þyngri (sem mér þykir verra).
Á meðan ég beið las ég mér til um lesarann. Sumir tóku Boyue lesara og settu upp Icarus hugbúnaðan sem þeim þótti af einhverjum ástæðum betra. Ég ætlaði að gera það en áttaði mig fljótlega á að það skipti líklega engu máli. Menn kvörtuðu yfir því að það var ekki hægt að setja inn Google Play en það var auðvelt að setja upp Amazon App Store og Good-E-Reader Store. Síðan fóru menn að ná rótarréttindum á lesaranum til að setja upp Google forritin. Sumir voru mjög ósáttir við endinguna á rafhlöðunni sem er mun minni en á hefðbundnum rafbókalesurum enda þarf tæki sem er að keyra alvöru Android og öflugan örgjörva meiri orku en tæki sem á bara að þjóna einu hlutverki. Það komu góð ráð við þessu vandamáli. Í fyrsta lagi þarf að slökkva alveg á lesaranum í stað þess að láta hann bara “hvílast” og síðan er hægt að láta inn forrit eins og Deep Sleep sem drepur á forritum sem eru að sjúga til sín orku. En batteríið mun aldrei endast eins og á t.d. Kindle. Við erum væntanlega að tala um að nota tækið án þess að hlaða það í viku í staðinn fyrir vikur.
Tækið var akkúrat þrjár vikur á leiðinni. Maður biður ekki um meira þegar sendingarkostnaðurinn er enginn. Heildarverðið var rétt rúmar 18.000 krónur þegar Tollurinn hafði bætt við skatti og umsýslugjöldum (c. 4100 kr.).
Lesarinn er á kínversku til að byrja með. Með því að bera stillingarvalmyndina saman við þá sem er í símanum mínum gat ég auðveldlega fundið enskuna.
Ég prufaði að setja inn nokkur forrit. Amazon App Store og Good-E-Reader Store fóru vandræðalaust inn og ég gat notað þau. Ég setti líka inn forrit eins og Facebook. Allt sem ég prufaði gekk (mér skilst að það sé jafnvel hægt að setja inn YouTube þó auðvitað sé ekki hægt að spila myndbönd).
Næst ákvað ég að hætta mér út í erfiða verkefnið sem er að ná rótarréttindum (root) á tækinu til þess að geta sett inn Google forritin. Ég fór eftir leiðbeiningum sem eru tilbúnar á Mobile Read spjallborðinu (þurfti reyndar að setja inn Superuser handvirkt). Ég mæli ekki með þessu fyrir hvern sem er en þetta er auðveldari aðferð en þegar maður þarf að nota minniskort. Það er líka ekki beint þörf á þessu nema maður vilji setja inn forrit sem eru annað hvort bara til í Google Play eða ef maður vill setja inn forrit sem maður hefur keypt hjá Google.
Þarna kom ég Google Play inn og gat þá sett inn forrit þaðan. Reyndar var vandamál til að byrja með þegar ég átti að velja einhvern valkost en gat það ekki af því að hnappurinn til að staðfesta valið sást ekki (vegna þess að þetta er ekki hannað fyrir rafbleksskjá). Ég reddaði því með því að pota í skjáinn þar til ég virtist finna ósýnilega hnappinn. Ég byrjaði að setja inn Moon+ Reader Pro sem er, að flestra sögn, besta rafbókarlestrarforritið. Forritið er líka það vel hannað að það vinnur með flettihnöppunum á Boyue lesaranum ólíkt t.d. Kindle appinu. Ég setti líka inn Dropbox sem vinnur með Moon+ Reader Pro í að samhæfa lesturinn milli tækja. Ég get þá farið í símann minn og látið Moon+ Reader lesa fyrir mig þar sem ég var síðast kominn í bókinni.
Heimavalmynd lesarans er stillanleg þannig að ég tók til þar og setti t.a.m. Moon+ Reader sem flýtihnapp.
Ég notaði síðan lesarann til að lesa. Ég þurfti að fikta dálítið í stillingunum þar til ég var ánægður. Ég dekkti stafina og valdi font sem heitir Calluna (en mér skilst að maður geti notað allar stafagerðir sem maður vill). Ég prufaði að lesa með framljósinu og þótti það ekkert rosalega frábært. Það dugar þó alveg. Þeir sem þekkja til líkja þessu við fyrstu kynslóð af Kindle Paperwhite.
Ég get ekki dæmt endanlega strax. Þetta er óneitanlega skemmtilegt tæki með marga möguleika. En þetta er lítið þekktur framleiðandi og engin ábyrgð. Batteríið stoppar örugglega marga. Vesenið við að setja inn Google forrit stoppar aðra. En mér finnst ég í fyrsta skiptið vera með rafbókalesara eins og þeir hljóta að verða í framtíðinni.