Fólk virðist hissa að einhver hafi strengt vír yfir hjólabrú í þeim augljósa tilgangi að slasa eða drepa hjólreiðafólk. Ég er það ekki. Ég sem hjólamaður hef fylgst með umræðunni undanfarin ár og hef séð mörg komment á vefmiðlum sem hræða mig. Ég man eftir einu tilfelli þar sem reynt var að fá lögregluna til að athuga mál en það gerðist ekki. Núna vildi ég að ég hefði safnað þessum athugasemdum saman til að sýna þau en það tók mig alveg 10 sekúndur að gúggla til að finna eitt skelfilegt dæmi.
Það ætti hverjum manni að vera ljóst að fólk sem leyfir sér að tala svona ætti ekki að vera með bílpróf.
Þessi athugasemd er úr umræðu á You Tube þar sem hjólreiðamaður birtir myndband þar sem Strætó tekur mjög gróft fram úr honum. Athugasemdirnar eru flestar á þá leið að hjólreiðamaðurinn ætti að vera á gangstéttinni. Það er mjög týpískt að þó að hjólafólk eigi lögum samkvæmt að vera á götunni og hafi undanþágu til að vera á gangstéttum þá finnst ökumönnum að þeir ættu ekki að þurfa að deila götunni með hjólum. Ökumenn sem eru á því áliti hafa augljóslega ekkert með bílpróf að gera.
Lögreglan, og jafnvel löggjafinn, þarf að taka hótanir og ógnanir í garð hjólreiðafólks alvarlega. Það á ekki að vera hægt að ræða um að myrða fólk án að þurfa að taka afleiðingum þess. Þegar menn leyfa sér að tala svona um ofbeldi í garð einhvers hóps þá er fyrr eða síðar einhver sem tekur þetta alvarlega og fer að framkvæma svona voðaverk.
Uppfært:
Stofnaður hefur verið hópur á Facebook sem heitir Ökumenn sem hata hjólreiðafólk.