Djóksíðan Einkabílahatrið

Fyrir svona hálfu ári eða svo tók ég eftir að vinir mínir voru að deila, og læka, síðunni Einkabílahatrið. Ég skoðaði hana og dró þá eðlilegu ályktun að þetta væri brandari á kostnað einkabílasinna. Ég geri ráð fyrir að allavega einhverjir vinir mínir hafi dregið þá ályktun líka. En eftir smá tíma sá maður að það var einhvers konar einlægni í kjánaskapnum og mér sýndist að það væri væntanlega alvara á bak við þetta. Ég aflækaði þó ekki síðuna af því að hún er ógeðslega fyndin (óvart).

Á þriðjudaginn birtist þarna frétt um hækkun sekta við stöðubrotum, þar á meðal í stæði fyrir hreyfihamlaða. Ég skrifaði athugasemd við fréttina sem mig minnir að hafi hljóðað orðrétt svona: “Frábært!” Næst þegar ég kíkti á síðuna var athugasemd mín horfin og ég sviptur réttinum til að skrifa fleiri athugasemdir. Þetta er væntanlega minnsta þol fyrir gagnrýni sem ég hef séð á nokkurri síðu.

En djókurinn er ennþá fyndinn því það var búið að bæta við einni línu í textann sem fylgdi hlekknum og hef ég breiðletrað hann hér ykkur til skemmtunar:

Ofbeldið heldur áfram í borginni..
Sektir fyrir stöðubrot hækka úr 5.000 krónum í 10.000 í Reykjavík. Borgarráð samþykkti tillögu þessa efnis í dag. Sekt fyrir að leggja í bílastæði hreyfihamlaðra hækkar í 20.000 krónur úr 10.000.

Sko, það er ofbeldi að sekta fólk fyrir að leggja ólöglega. Það má lengi gengisfella hugtök.

Leave a Reply