Þátttaka barna í spilltum íþróttaheimi

Þegar maður fer að huga að íþróttaiðkun barna sinna og lítur í kringum sig þá líður manni ekki vel. Vill maður að börnin taki þátt í handboltaíþróttinni þar sem nýbúið er að halda gjörspillt heimsmeistaramót í landi þar sem er farið með verkamenn eins og þræla? Fótbolta þar sem á að halda heimsmeistaramót í sama landi og þar sem allir vita að það er verið að stunda þrælahald í byggingarvinnu tengdar mótinu? Allir ættu síðan að vita að Fifa er gjörspillt. Ólympíuleikarnir voru síðan haldnir í Rússlandi og Kína.

Síðan er karlremban í þessum íþróttum. Það virðist enn stundað að kalla fólk kellingar og stelpur fyrir að vera ekki nógu góðir. Síðan er víst til nýleg upptaka af helstu handboltastjörnu Íslands að kalla liðsmenn sína “spastíska”.

Ég myndi vilja fá skýr merki frá íþróttahreyfingunum um að þau séu ekki sátt við þessa stöðu. Annars þá finnst mér bara ekkert spennandi að láta börnin mín taka þátt í þessu.

Ég er ekki heldur spenntur fyrir því að láta börnin taka þátt í starfi sem hefur það að stefnu að gera börn að afreksfólki og skilur þau útundan sem ekki eru á þeirri braut. Helsta markmið íþróttaiðkunnar á vegum þessum opinbera ætti að vera að kenna börnum hreyfing geti verið skemmtileg.