Þá er stóri dagurinn runninn upp. Ég er að láta gamlan draum rætast með því að gefa út spil.
Kommentakerfið á Karolina Fund.
Eftir að ég gaf Eygló spilið Cards Against Humanity þá datt mér í hug að þýða það. Ekki til útgáfu. Bara til að setja á netið. En það reyndist óþýðanlegt. Nokkru seinna datt mér í hug að hægt væri að aðlaga hugmyndina að íslenskum aðstæðum. Í raun með því að gerbreyta því en halda þeim grunni sem Cards Against Humanity hefur frá spilum eins og Apples to Apples.
Hugmyndin sem ég fékk var að nota þemað „kommentakerfi vefmiðlana“. Það virkar sumsé þannig að einn spilari tekur að sér hlutverk ritstjóra í hverri umferð og leggur út spjald með fyrirsögn. Hinir spilararnir geta valið úr þeim tíu kommentaspjöldum sem þeir hafa á hendi. Þegar allir hafa lagt út spil þá velur ritstjórinn hvaða komment honum þótti fyndnast í samhenginu. Sá sem átti fyndnasta spilið fær stig. Þá tekur næsti spilari við hlutverki ritstjórans.
Ég prufaði að prenta spilið út á venjulegan pappír og það svínvirkaði. Fólk hló og hló. Ég tók þá næsta skref og lét prenta fyrir mig prufuútgáfu. Það virkaði enn betur. Fólk grét úr hlátri. Ég ákvað þá að nota Karolina Fund til að safna fyrir prentun með forsölu.
Fyrir þá sem vita ekki hvernig Karolina Fund virkar
Ég er með ákveðið grunntakmark á Karolina Fund, 5000 evrur, og ef mér tekst að safna þeim pening þá eru allir sem tóku þátt rukkaðir um áheitið sitt. Ef það tekst ekki þá er öllu skilað og ég fæ engan pening. Það tryggir það að ég hafi nægan pening til að gefa spilið út. Það er því engin áhætta fyrir kaupanda eða framleiðanda.
Ég gef mér október í að láta prenta spilið og stefni á afhendingu í nóvember.
Kommentakerfið á Karolina Fund.
Til að hjálpa væntanlegum kaupendum fór ég með frumtýpur af spilinu, reyndar með færri spjöldum en lokaútgáfan er með, í verslanirnar Nexus og Spilavini.