Höfundaréttarráð: „Wine and dine“ og annar lobbýismi.

Annar fundur minn sem fulltrúi í höfundaréttarráði var áhugaverður. Þar er ég fulltrúi Upplýsingar – félags bókasafns- og upplýsingafræða en þessir punktar eru meira persónulegt álit mitt frekar en félagsins.

Í fyrsta lagi var farið yfir þau frumvörp sem ekki komust í gegnum þingið núna. Pírötum var kennt harkalega um að þau komust ekki í gegn. Reyndar var því mótmælt aðeins, t.a.m. af Óttari Proppé sem sagði að það væri ekki hægt að fría hina 60 þingmennina ábyrgð. Almennt var talað um þessi frumvörp á þann hátt að þau væru til að bæta aðgang almennings að efni. Ég var nú ekki alveg sammála því.

Það frumvarp sem kom næst mér, og ég las í gegn á sínum tíma, varðaði munaðarlaus verk. Satt best að segja þótti mér frumvarpið máttlaust og sá ekki að það hefði breytt sérstaklega miklu á Íslandi.

Cliff Richards frumvarpið varðaði lengingu höfundaréttar tónlistarflytjenda úr 50 árum í 70 ár. Það frumvarp var reyndar margmisskilið. Í raun skiptir það ekki miklu máli en ef maður er ekki á því að meiri höfundaréttur sé betri þá sér maður ekki tilganginn með því.

Þriðja frumvarpið var um samningskvaðir. Ég er í sjálfu sér nokkuð hlynntur því. Það gæti gert nokkuð góða hluti. Hins vegar verð ég að játa að ég skil það ekki algjörlega og þyrfti að kafa miklu dýpra í það til að skilja.

Næst var rætt um frumvarp sem ekki var lagt fram. Það varðaði breytingar á hinum svokallaði STEF-skatti (sem er auðvitað ekki skattur, þetta er uppnefni). Þar sá maður helst mun á sér og flestum öðrum á fundinum. Þó gjaldið hafi verið umdeilt á sínum tíma þá litu fulltrúar þeirra samtaka sem græddu á því á það sem réttmætar tekjur. Þar sem þessi tekjustofn þeirra hefði dregist gríðarlega saman síðustu ár þá ætti ríkið að útfæra gjöldin upp á nýtt til að tekjurnar yrðu aftur jafn miklar og áður.

Ég held að í salnum hafi ekki verið neinn skilningur á því hve gríðarlega neikvæð áhrif hinn svokallaði STEF-skattur hafði á ímynd höfundarétthafa á Íslandi. Sú ósanngirni sem felst í því að fólk hafi þurft að borga höfundarétthöfum gjald fyrir að kaupa tölvu eða skrifa gögn á geisladisk. Þetta setti stórt skotmark á íslenskt höfundaefni. Ef það á að bæta við gjöldum á fleiri tæki og tól þá er ólíklegt annað en að ímynd höfundarétthafa skaðist enn meira.

Sjálfur nefndi ég atriði sem mér fannst líka mikilvægt á þeim tíma. Það er að það er engin leið til að útdeila þessum peningum raunverulega til þeirra listamanna sem verða fyrir því að verkum þeirra er deilt á netinu. Siðferðislegur grunnur gjalds á borð við þetta ætti að vera sá að fólkið sem verður mögulega fyrir tekjuskerðingu sem fær peningana. Sérstaklega er það vafasamt ef einhverjir milliliðir eru að hirða eitthvað af þessum peningum.

En það sem fór verst í mig á fundinum var tal sumra á fundinum, t.d. fulltrúa STEFs og BÍL, um lobbíisma. Sérstaklega athugasemd fulltrúa STEFs um „Wine and Dine“ aðferðina til að hafa áhrif á þingmenn. Meðal þess sem var rætt um Pírata var að þeir skildu ekki ekki kerfið. Ég held að það sé misskilningur. Píratar skilja kerfið ágætlega en eru ósáttir við það. Lukkulega voru aðrir þarna sem töluðu um samræður við Pírata. Síðan var fulltrúi Stafræns frelsis aðeins að reyna að koma þeirra sjónarmiðum á framfæri. Þá var gaman að einn var fulltrúi höfundarétthafa þó hann skilgreindi sig sem Pírata. Það sýnir að þessi mál eru flóknari en þau eru máluð.

Samsetningin á pallborðinu var frekar einsleit. Nær allir á þeirri skoðun að meiri höfundaréttur væri betri. Fulltrúi RÚV var reyndar aðeins að tala um aðgengi almennings. En það var enginn fulltrúi almennings þarna. En þarna var fulltrúi Símans. Ég sá ekki neinn hnjóta á sama hátt og mig um það þegar hann talaði um að Síminn væri beggja vegna borðsins í málunum. Þeir seldu netþjónustu og seldu aðgengi að efni. Sjálfum finnst mér það vafasamt. Stórfyrirtækin ættu að hafa sem minnst að segja um þessi mál.

Við sem komum frá Upplýsingu vorum nokkuð sammála um að rödd aðgengis, rödd almennings, heyrðist ákaflega lítið á fundinum. Á tíma var talað um að fundurinn sendi frá sér ályktun en ég tel ólíklegt að við í Upplýsingu myndum skrifa undir slíka ályktun. Ef höfundaréttarráð á að vera alvöru vettvangur til umræðu þá þarf að opna hann fyrir fleiri röddum. Síðan væri auðvitað gott að fleiri sem eiga aðild að ráðinu myndu yfirhöfuð mæta.