Lagið Higher Love með Steve Winwood er voðalegt níunda áratugs lag. Það fór á toppinn á milli Madonnu og Bananarama. Það festist í hausnum á manni. Ég hélt samt alltaf að þar væri sungið „Jupiter Hollow“ en ekki „Bring me a higher love“.
Það er ekki langt síðan að ég heyrði þetta lag aftur og var að reyna að syngja með. Mér fannst það ganga illa og leitaði að textanum og sá að það var kolvitlaust hjá mér. Það er ekkert verið að syngja um Jupiter Hollow. En ég mundi hvar ég lærði textann.
Big Business er gamanmynd sem er líka síns áratugs, þess níunda. Bette Midler og Lily Tomlin leika þar systur – eins og sést í þessu atriði.
Í myndinni er smábærinn Jupiter Hollow í aðalhlutverki og ég mundi sterkt eftir því að hafa heyrt lagið þarna og hugsað með sjálfum mér, „já, það er verið að syngja um þennan bæ“. Í kjölfarið festist textinn í hausnum á mér. Ég var voðalega glaður að ég mundi allavega nafnið á bænum rétt.