Ég var að setja á netið áttunda þáttinn í podkastinu mínu Stories of Iceland í gær. Í morgun fór ég að kíkja á hve mikið niðurhalið á honum væri og varð steinhissa. Ástæðan er að á fimmtudaginn kom allt í einu stór kippur. Þar voru 600 niðurhöl en á venjulegum degi, sérstaklega í miðri viku, eru þau 150. Það var enginn nýr þáttur kominn í þessum mánuði en á birtingardögum kemur alltaf kippur frá áskrifendum mínum.
Ég veit ekkert hvað olli þessum kipp. Líklegast þykir mér að einhver podkastveitan hafi sett mig á forsíðuna hjá sér. Vandinn er að þessar veitur nota almennt ekki rekjanlega hlekkinn sem gefur mér upplýsingar heldur vísa beint á skrá hjá mér. Vissulega fæ ég ýmsar upplýsingar samt sem áður en ég sé ekkert sem skýrir þetta þar.
Á sama tíma og ég er að fá öll þessi niðurhöl þá er áhugavert að Facebook-síða podkastsins míns er algjörlega dauð. Ég er með rétt rúmlega 100 læk og tók alveg eftir því að það bættust nokkur svoleiðis við á fimmtudaginn á sama tíma og stóri niðurhalskippurinn kom. En Facebook er líka gagnslaus því að þeir sýna ekki nema örfáum þá pósta sem ég birti á síðunni þar. Ég er ekki alveg viss um hvort ég ætti yfirhöfuð nokkuð að púkka upp á Facebook.
En málið er að podkastheimurinn er allt öðruvísi en flest á netinu. Ég bara skráði strauminn minn hjá podkastveitum og forritum og fékk síðan fullt af niðurhlöðum án þess að vita nokkuð um það hverjir eru að hlusta.