Á Spotify sjá vinir manns hvað maður er að hlusta á. Gallinn er sá að þeir sjá líka síðasta lagið sem maður hlustaði á. Þannig að lög sem maður hlustar á í gegn hverfa um leið og þau klárast en lag sem var í gangi þegar maður stoppaði Spotify sést þar til maður setur eitthvað næst af stað. Þannig að þetta “stopplag” sést lengur en hin.
Í gær þá stoppaði ég Spotify þegar lagið How I am Supposed to Live Without You með Michael Bolton var í gangi. Þannig að Spotify-vinir mínir höfðu um tólf klukkutíma til að komast að þeirri niðurstöðu að ég væri stærsti Michael Bolton aðdáandi í heimi.
Ég gæti haldið því fram að ég hafi bara óvart lent á lagi með Michael Bolton og orðið svo miður mín að ég fleygði tölvunni í vegginn til þess að tónlistin myndi stoppa. En staðreyndin er reyndar sú að ég var alveg viljandi að hlusta á þetta lag. Ég er ekki mikill Bolton aðdáandi en það að sjá hann gera grín að sjálfum sér í Never mind the Buzzcocks og Valentínusarþættinum á Netflix hefur gert mig frekar jákvæðan gagnvart honum persónulega þannig að ég þoli alveg að hlusta á hann.