Skrípanöfn og vítaverðir ósiðir

Ég rakst á grein frá árinu 1898 í Þjóðólfi og, í kjölfarið, á aðra í sama riti frá árinu 1892. Þar fjallar greinarhöfundur (líklega Hannes Þorsteinsson) um ýmis konar nafnaósiði á Íslandi. Ég tók saman nokkra punkta úr þessum tveimur greinum:

Óskandi væri samt, að Jónarnir fækkuðu heldur hér eptir, því að Jón Jónsson t. d. er sama sem ekkert nafn út af fyrir sig, svo að það er jafnvel nauðugur einn kostur að hnýta við það einhverju ættarnafni til leiðbeiningar, enda hafa margir Jónar Jónssynir gjört það,

[…]

Þó eru kvennmannaheitin sýnu lakari t. d. Abela, Abigael, Agata, Albína, Aníka, Anína, Arey, Atfríður, Baldvinía, Barbara, Bárðlína, Batanía, Bersabe, Bóel, Bóletta, Brigget, Daðína, Debóra, Diðrika, Dilja, Drysjana, Dýrunn, Egidína, Einara, Elína, Elínrós, Elísa(!), Elka, Elsabjörg, Emelína, Emerenzíana, Engilmaría, Erlina, Etilríður, Eulalía, Eyjólfína, Feldís, Fídes, Friðjóna, Friðlína, Frugit, Guðanna, Guðbil, Guðjóna, Guðjóný, Guðlína, Guðmunda, Guðrúnbjörg, Gúríe, Gytta o. s. frv.

Ég vil taka skýrt fram að það er höfundurinn sjálfur sem telur nafnið Elísu slíkt skrípi að hann þarf að setja upphrópunarmerki við það. Það eru mörg slæm nöfn í upptalningu hans en Elísa er ekki eitt þeirra.

Það þekkja víst margir söguna um karlinn, sem vildi láta skíra barnið sitt „Jesú Krist“. Og það eru svo ótalmörg dæmi upp á samskonar sérvizku í þessu efni. Móðir Natans Ketilssonar ætlaði að láta hann heita Satan, af því að „sá gamli“ hafði vitjað nafns hjá henni í draumi, að mælt var, en það er gömul trú, að hlýða beri slíkum vitrunum. Presti þótti samt Satansnafnið eigi sem viðkunnanlegast skírnarnafn, en til þess að brjóta þó eigi algerlega bág við gamlan átrúnað og styggja ekki myrkrahöfðingjann um skör fram, skírði hann drenginn Natan.

Ég man ekki eftir að hafa heyrt þessa sögu áður, þó það gæti vel verið, en hún verður að teljast ósennileg.

Í seinni greininni er höfundur enn að kvarta meir yfir nöfnum kvenna en í þetta sinn þá eru flest nöfnin sem hann nefnir bara mjög fín.

Einkum eru kvennmannaheitin yfirleitt miklu afskræmislegri, en karlmannaheitin. Einkennilegt er það, hversu allskonar samsetningar við »ást eru almennar, t. d. Ástmann, Ástmundur, Ástvaldur, Ástvin, Ástrós o. s. frv. Kvennmannaheitin: Snót, (í Dalasýslu), Fjóla (í Norðurmúlasýslu), Eygló (í Reykjavík), Hugljúf og Sumarrós (í Skagafirði) eru að vísu eigi ljót nöfn, en dálítið óviðkunnanleg eru þau. Sóley, Eyrarós, Baldursbrá, Hrafnaklukka, Ástljúf, Haustrós mundu t. d þykja skrítin eiginnöfn, en þau eru í fullu samræmi við hin fyrnefndu, og engu lakari. Svo óviðkunnanleg og tilgerðarleg, sem þessi nöfn eru, geta þau kallazt sómasamleg í samanburði við önnur verri.

Þarna náði hann sumsé bæði að tala illa um nafn móður minnar og konu.

Að lokum viljum vér skora á alla foreldra (og presta, að svo miklu leyti, sem þeir geta við ráðið), að varast öll útlend nafnskrípi, smekklausar og óliðlegar samsetningar nafna og fleirnefni, skíra börn ekki ættarnöfnum eða fóðurnöfnum manna og helzt aldrei nema einu smekklegu nafni, einkum forníslenzku eða öðru látlausu nafni. Það er enginn hörgull á þeim.

Leave a Reply