Við létum undan þaulskipulögðum og langvarandi þrýstingi frá strákunum okkar og fórum til Lególands. Við keyptum okkur vikuferð með gistingu í sumarhúsabyggðinni Lalandia og tókum tengdamömmu með.
Við fórum út laugardaginn 15. júní. Flugið var tíðindalítið. Það var hálfskrýtið að koma út úr flugstöðinni í Billund og allt í myrkri. Við náðum samt að finna leigubíl sem kom okkur á upplýsingaskrifstofuna.
Skrifstofan, og Lalandia, er í undarlegu húsi sem var gervi-ítalskur bær. Loftið var sérstaklega spes. Það var blár himinn, einhvers konar tjald.
Við fengum lykla en síðan var að finna húsið okkar í myrkri. Það var ekki auðvelt. Það var líka mjög langt frá skrifstofunni. En það tókst.
Húsið var mjög þægilegt. Þrjú svefnherbergi. Ég játa þó að ég bjóst við meiru en hornbaðkari miðað við lýsinguna á „spa pool“ sem átti að vera helsta aðdráttaraflið. Síðan fatta ég ekki alveg hvernig hægt er að bjóða upp á svona hús án þess að þar sé brauðrist. Bara fráleitt.
Daginn eftir var rólegt. Ég rölti samt strax yfir í Coop og keypti nauðsynjar og líka þessi yndislegu birkistykki. Við fórum síðan í sundlaugargarðinn í Lalandia. Aquadome. Þar var fullt af rennibrautum en líka sundlaug með öldugangi og önnur hringlaga með straumi. Ég fílaði þá sundlaug sérstaklega vel. Kleinuhringirnir voru bátarnir okkar í flúðum. Við strákarnir fórum hring eftir hring.
Það var líka sána. Ég held að ef Finnland væri í Tíbet þá væri sána álitið einhver hápunktur hugleiðslumenningar. En í staðinn þá eru Finnar bara álitnir fullir, félagsfælnir og skrýtnir.
Við prufuðum líka einhvern veitingastað í Lalandia sem var ekkert spes og þar að auki dýr. Svona svipað og á flestum stöðum í Billund. Reyndar var Deli þarna í Lalandia boðlegt.
Á mánudaginn var Legoland á dagskrá. Við vissum út frá Google-gögnunum að þá yrðu fáir á ferð – enda sumarleyfin varla byrjuð í Danmörku.
Við pældum fram og til baka í miðakaupum. Að lokum keyptum við ársmiða sem borgaði sig af því við stefndum að því að koma nógu oft aftur sem við gerðum og ég set það bara allt í einu frekar en að brjóta það niður á daga.
Það voru töluverðir töfrar í Lególandi. Við byrjuðum bara á að rölta um kubbabyggðirnar. Þar var margt flott. Manni langaði bara að fara sjálfum að kubba og ég keypti líka töluvert af svoleiðis fyrir strákana – eða mig.
Strákarnir fóru í ótal tæki en ég tók oft að mér að halda á töskum og veskjum. Gunnsteinn var rosalega spenntur að fara í tæki sem Ingimar var of lítill fyrir. Við þurftum nokkrum sinnum að áminna hann að monta sig ekki of mikið fyrir framan litla bróður.
Ég hafði gaman af því að fara í nokkra báta, jafnvel þegar það reyndi smá á lofthræðslu mína. Víkingabátur og kajak.
Strákarnir voru líka spenntir fyrir fjórvíddarbíói og við höfðum bara gaman af því líka. Það er hæfilegt að eyða svona fimmtán mínútum með þrívíddargleraugu.
Maturinn í Lególandi var rándýr og ekkert rosalega góður. Boðlegur á köflum reyndar en ekki alltaf. Verst var pylsan sem ég fékk. Ég bað um tómatsósu, remúlaði og sterkt sinnep. Ég bjóst við að tvær fyrrnefndu sósurnar væru ráðandi og sinnepið meira eins og krydd. En nei, það var ekki svo. Sinnepið var meira en helmingurinn af sósunni. Það var skelfilega vont. Sósan var líka frekar lagskipt. Tómatssósan var eiginlega bara neðst.
Á fimmtudag fórum við í Legóhúsið. Það var ákaflega skemmtilegt. Gunnsteinn heillaðist sérstaklega af því að geta búið til svona hreyfimynd með legóköllum og hefði getað farið þar aftur og aftur. Það var líka bara mjög gaman að leika sér að byggja hitt og þetta.
Eftir Legóhúsið dró ég alla með mér á þann veitingastað í Billund sem var með hæstu einkunnina. Bellini. Þar fékk ég dásamlegt lasagna. Allir voru mjög glaðir. Ingimar fékk sér lítinn skammt af frönskum sem var svo stór að okkur langaði næstum að panta stóran skammt til að fá samanburðinn.
Við Eygló röltum út á flugvöll á föstudaginn og náðum í bílaleigubíl. Það átti að vera beinskiptur Renault en var sjálfskiptur Audi. Gaurinn í afgreiðslunni reyndi að sannfæra mig um að fá uppfærslu og nefndi tegund af Audi með aðeins öðruvísi tölu-/stafaröð en sá sem ég átti að fá. Hann virtist álíta að bókstafirnar og tölurnar ættu að vera nóg til að heilla mig og þegar ég spurði hver væri munurinn á bílunum þá gat hann ekkert sagt.
Mér tókst að keyra sjálfskiptan, þrátt fyrir aðstoð Eyglóar, en það var smá átak fyrst. Á laugardaginn skiluðum við af okkur húsinu, settum töskur í geymslu og keyrðum að dýragarðinum í Givskud. Það tók smá á og leiðsöguforritið vildi ekki samþykkja að ég breytti leiðinni minni eða stytti hana.
Það sem heillaði mest þar var að keyra í gegnum heimkynni dýranna. Gíraffarnir voru glæsilegir. Við tókum síðan smá rölt til að sjá nashyrninga og górillur. Við sáum allavega eina górillu sem var í Vilhelmínu-dýragarðinum sem við fórum í 2010. Ekki samt Kládía.
En mér fannst nashyrningarnir flottastir. Gríðarstórir og glæsilegir. Það skemmdi ekki fyrir þegar mæðgin komu í áttina að okkur og mamman lagðist niður og sá litli, á stærð við naut, fór á spenann. Ég syrgði myndavélabatteríið mitt.
Við fengum líka að sjá litla apa. Þeir voru skemmtilegir og komu svoltið til okkar stóru apanna. Mjög sætir. Síðan voru líka risaeðlur. Ljónin áttu að vera hápunkturinn og það var smá Júragarðarstemming að fara þangað inn. Bílarnir einangraðir í búri til að koma í veg fyrir að ljónin kæmu sér út.
Ég náði með hörku að sannfæra hópinn um að koma við í Jalangri og skoða rúnasteina. Þetta er náttúrulega fæðingarstaður Danmerkur. Við skoðuðum líka safnið og Gunnsteinn heillaðist af öllu sem mátti fikta í. Eygló var alveg heilluð af bænum og vildi helst flytja þangað.
Við ferjuðum okkur og töskurnar á flugvöllinn. Skiluðum bílnum og biðum eftir fluginu. Ég var voðalega glaður að sá að það var lagkökuhús á vellinum en það lokaði meðan ég beið með drengjunum í Legóbúðinni.
Ég neyddist til að nota klósettið á vellinum og mig grunar að það hafi verið lokahefnd sinnepsins. En ég lenti í fáránlegu veseni. Fyrst beið ég eftir að annað af tveimur klósettum losnaði en ekkert gerðist. Þá fór ég á annað salerni þar sem voru þrír básar og allir uppteknir og einn annar að bíða eftir að það losnaði. Það tók fáránlega langan tíma.
Fluginu heim seinkaði, alveg eins og fluginu út en við komumst heim. En það gekk allt. Við Gunnsteinn sátum tveir saman aftast.
Þetta var allt gaman. Ég mæli með Lalandia, Aquadome, Legolandi, Givskud og Jalangri.
Sögulok.