Ég hef núna tvisvar séð morgundaginn kallaðan allraheilagramessu. Augljóslega er það rangt. Kaþólikkar halda allraheilagramessu 1. nóvember. Halloween er stytting á „All Hallows’ Eve“ sem gæti útlagst sem aðfangadagskvöld allraheilagramessu.
Halloween er náttúrulega aðlögun á keltneskri hátíð sem kallað samhain (en borið fram hér um bil sá(v)en af því að Írar eru klikk). Þar sem sú hátíð markar skil árstíða þá er mjög einfalt að jafna samhain við íslenska dagatalið, sumsé við lok sumars og fyrsta vetrardag. Í fornum heimildum eru þetta veturnætur. Það væri vissulega þjóðlegt og skemmtilegt.
Það væri reyndar gaman að fara í írskan gír á þessum tímamótum. Hafa brennur og grímubúninga og sleppa bandarískum nammipælingum. Almennilega jaðarhátíð (liminal).
En það er einfaldast að kalla þetta hrekkjavöku. Ef maður hugsar um það þá passar þetta orð miklu betur við það hvernig bandaríska hátíðin er haldin heldur en orðið „halloween“. En við Íslendingar höfum ekkert rosalega mikla hefð fyrir hrekkjum á þessum degi. Krakkar hérna vaka ekki heldur neitt sérstaklega langt frameftir. Ég held að hrekkjavaka sé bara eina orðið sem við höfum sem getur keppt við halloween og mér finnst bara svo afskaplega pirrandi að nota slettur þegar góð orð eru í boði.