Minningarnar koma ekki eins og þær eru

Come As You Are kallaði fram undarleg hughrif hjá mér þegar ég heyrði það fyrst. Upphafsriffið vakti nefnilega fram minningar úr ákveðnu húsi. Minningarnar tengjast stofunni í húsinu, mér finnst ég næstum geta séð hljómflutningstækin þar og um leið man ég skýrt eftir þykka teppinu sem var á gólfinu.

En þegar Come As You Are kom út voru orðin þónokkur ár frá því að ég hafði heimsótt þetta hús. Það bjó ekki neinn lengur sem ég þekkti í húsinu. Samt var þessi skynminning sterk.

Löngu seinna las ég mér til og komst að því að Nirvana lagið var undir miklum áhrifum frá Killing Joke lagi sem heitir Eighties. Ég hlustaði á Eighties en það passaði ekki jafn vel við minningar mínar. Það þýddi í raun ekkert í sjálfu sér. Ég hafði hlustað svo oft á Come As You Are í millitíðinni að minningin gæti allt eins verið búin að aðlagast því.

Enn seinna komst ég að því að það var til enn eitt lag með sama riffi. Það var lagið Life Goes On með The Damned. Ég var fljótur að finna það, enda var á þeim tímapunkti hægt að nálgast nær alla tónlist heimsins með einfaldri leit á netinu. Þegar ég setti það af stað þá hafði það miklu meiri áhrif á mig en Eighties, skynminningin passaði við upphafsriffið. Eða var það bara líkara Come As You Are?

Heyrði ég Eighties þegar ég var 5-6 ára í stofunni í Lerkilundi? Eða var það Life Goes On? Ég veit ekki. Ég þyrfti helst að spyrja hann Þórarinn frænda minn hvort hann hafi verið líklegri til að hlusta á Killing Joke eða The Damned.

Leave a Reply