Fólksfjölgunarvandamálið

Þegar loftslagshamfarir eru í umræðunni þá koma alltaf reglulega athugasemdir um að raunverulega vandamálið sé fólksfjölgun. Nú er ég alveg á því að það væri gott að koma jafnvægi á fjölda jarðarbúa, jafnvel þannig að þeim fækki í framtíðinni. Samt er ég á því að þeir sem tala um þetta sem lausn á útblæstri gróðurhúsalofttegunda séu að misskilja eða mistúlka.

Með því að líta framhjá öllu samhengi þá er hægt að líta svo á að fjölgun fólks í “þriðja heiminum” (eða hvaða hugtak við notum til öðrunar á fátækari hlutum heims) sé vandamálið. En ef við athugum hverjir það eru sem eru að nota auðlindirnar þá sjáum við að það er gríðarleg rangtúlkun.

Við sem búum í hinum vestræna heimi erum að ganga á auðlindir jarðar. Við erum eins og sníkjudýr á jörðinni. Við tökum til okkar endalaust, hvort sem það er orka, matur eða bara hvers konar dót og drasl. En það er ekki nóg með að við tökum þetta til okkar heldur hendum við þessu frá okkur nærri því jafn hratt og við kaupum það.

Þegar bent er á þessar staðreyndir eru alltaf einhverjir sem svara með því að segja að mengun sé mest í fátækari löndum. En hvers vegna er verið að menga svo mikið þar? Jú, vegna þess að það er verið að framleiða allskonar fyrir okkur sem höfum efni á að kaupa.

Þegar ég segi “við” þá á ég vissulega m.a. við sjálfan mig. En auðvitað þá er ríkasta prósentið sem er helsta vandamálið. Í raun stigversnar það eftir því sem prósentubrotið minnkar. Fólk sem á peninga til brenna notar þau völd til þess að brenna framtíð okkar allra.

Ég trúi ekki á illsku, allavega ekki Illsku eða hið Illa, en ég veit að græðgi er til og græðgi er líklega það sem kemst næst því að vera Illska. Fátækt fólk sem eignast börn er ekki byrði á heiminum, það er fólkið sem á 600m² sjávarvillur sem er að skemma heiminn.