Ég stofnaði Rafbókavefinn árið 2011. Hann var meginhluti meistaraverkefnis míns í hagnýtri menningarmiðlun. Þarna eru vel á annað hundrað rafbækur í opnum aðgangi. Til að byrja með tók ég aðallega texta frá Netútgáfunni og breytti í rafbækur (epub og mobi). En ég vildi gera meira.
Ég fékk Svavar Kjarrval með mér í lið. Hann hafði byggt bókaskanna með afa sínum. Þannig gátum við myndað bækur sem voru komnar úr höfundarétti. En það er mikil vinna að breyta myndaðri bók yfir í rafrænan texta. Fyrst þarf að ljóslesa textann. Þá fer sérstakt ljóslestursforrit yfir textann og reynir að endurskapa hann í rafrænu formi.
En ekkert ljóslestursforrit er fullkomið þannig að Svavar setti upp vefkerfi (byggt á kóða frá erlendri fyrirmynd) þar sem hver sem er gat skráð sig og hjálpað til við að lesa yfir textana. Við kölluðum það dreifðan prófarkarlestur. Það gekk vel í nokkurn tíma en það var samt erfitt að halda starfinu virku til lengri tíma. Það var alltaf mikil vinna hjá mér.
Að lokum fjaraði þetta út. Bókaskanninn bilaði. Vefkerfið klikkaði og við höfðum ekki tíma til að koma öllu aftur af stað. En mig langaði alltaf að gera meira.
Þegar vírusinn fór af stað hugsaði ég með mér að nú væri gott að geta farið í dreifðan prófarkrlestur. Þar sem ég hafði í millitíðinni lært töluvert um rekstur vefkerfa þá tók ég mig til og leigði sýndarvél og prufaði að setja upp nýjustu útgáfu af vefkerfinu. Það var mikil vinna og að lokum fékk ég hjálp frá forriturunum og saman uppgötvuðum við villu í kóðanum. Ég þurfti þá líka að þýða kerfið upp á nýtt, allavega þann hluta sem snýr að notendum. Ég keyrði það í gegn. Og núna er hægt að skrá sig aftur í dreifðan prófarkarlestur.
En það hefur fleira breyst. Lýðfjármögnun er orðinn raunverulegur möguleiki aftur. Ég er búinn að setja upp söfnunarsíðu á Karolina Fund þar sem fólk getur stutt okkur. Hingað til hef ég borgað nær allt sjálfur (Svavar þurfti kostaði á sínum tíma skannann og hýsinguna en núna get ég beðið um stuðning á einfaldan hátt. Hvort sem það eru fyrirtæki eða að einstaklingar þá getið stutt okkur.
Ég er líka búinn að setja fram hugmyndir um að búa til hljóðbækur. Við getum gert það í upptökuverinu í Kistunni. Þannig að ef við fáum nægan stuðning getum við gert ótrúlega margt.
Þú getur hjálpað með því að skrá þig í dreifðan prófarkarlestur eða með því að gefa okkur pening á Karolina Fund.
Ég er búinn að setja inn fjórar bækur í dreifðan prófarkarlestur. Þetta eru bækur sem búið var að skanna á bækur.is og það var tiltölulega auðvelt að ljóslesa þær og setja inn í kerfið. Ég mun auðvitað bæta við fleiri bókum eftir því sem á líður en þetta er ágæt byrjun.
Íslenskar sögur og sagnir | Þorsteinn Erlingsson (1858 – 1914) |
Norsk æfintýri (1. bindi) | Peter Christen Asbjørnsen 1812 – 1885, Jørgen Engebretsen Moe 1813 – 1882, Jens Steindór Benediktsson 1910 – 1946 |
Fjalla-Eyvindur | Jóhann Sigurjónsson (1880-1919) |
Systurnar | Guðrún Lárusdóttir 1880 – 1938 |