Nasistar eru trúðar (Jojo Rabbit – höskuldar)

Um daginn fór ég í bíó og sá Jojo Rabbit. Mér fannst myndin frábær og ég held að flestir séu sammála mér. En ekki allir. Eftir að hafa séð myndina rakst ég á gagnrýni á myndina sem fór voðalega í taugarnar á mér. Í nýjustu Stundinni er síðan grein þar sem vísað er í mjög svipaða gagnrýni.

Jojo Rabbit fjallar um tíu ára strák, Jojo, í Þýskalandi nasismans. Áróður nasismans hefur virkað svo vel að hann tilbiður Hitler. Síðan komumst við að því að mamma hans er andfasísk í meira lagi og hefur tekið að sér að fela gyðingastúlku (Elsa) í húsinu.

Það sem fólk hefur helst út á myndina er þrennt:

  1. Nasistarnar eru sagðir vera of kjánalegir.
  2. Of mikil áhersla á góða nasista.
  3. Elsa ber þess lítil merki að vera gyðingur.

Það að nasistarnir í myndinni séu of kjánalegir byggir á falskri valklemmu. Það er nefnilega hægt að vera bæði trúður og skrýmsli. Þegar nasistar voru að komast til valda þá var auðvelt að sjá að þeir voru hlægilegir. Gæsagangandi hálfvitar. Ef við horfum á fréttamyndir í dag með drungalegri hljóðrás þá gleymum við oft hvað þetta var bjánalegt. Þegar við sjáum ris fasista í samtíð okkar þá er auðvelt að segja að þeir séu bara trúðar því að þó þeir séu vissulega trúðar þá geta þeir verið stórhættulegir. Myndin gerir þetta alveg frábærlega. Við fáum Gestapóliða í heimsókn og þeir líta út eins og fávitar en síðan verður ógnin skyndilega raunveruleg af því að þeir hafa vald og vilja til þess að framfylgja sinni heimskulegu heimssýn.

Þegar þessir gagnrýnendur segja að það sé of mikil áhersla í myndinni að það hafi verið til góðir nasistar þá virðist það byggja á mjög undarlegum skilningi á því hvað nasisti sé. Þetta sést helst á Klenzendorf höfuðsmanni sem leikinn er af Sam Rockwell. Hann sýnir í myndinni að hann sé góð manneskja en það sem gerir hann að góðri manneskju er að hann er ekki nasisti. Um leið og hann kemur fram á sviðið þá er manni ljóst að hann hefur enga trú á leiðtogum landsins. Það er ekki hægt að setja samasemmerki milli þess að vera þýskur hermaður og að vera nasisti. En hann er ekkert fullkominn. Hann berst fyrir landið sitt, og þar með nasista, þó hann ætti að vita betur.

Persóna Jojo sjálfs hefur líka verið nefnd sem dæmi um góðan nasista. Slíkt finnst mér varla svaravert. Slíkt byggir á því að misskilja myndina. Tíu ára börn geta ekki verið nasistar. Tíu ár börn sem alla ævi hafa fengið innrætingu úr öllum áttum hafa engan grunn til að taka slíka afstöðu.

Varðandi Elsu og skort á því að persóna hennar beri einhver merki þess að vera gyðingur þá finnst mér það í raun frábært. Það voru ótalmargir gyðingar í Þýskalandi sem höfðu aðlagað sig nær fullkomlega að samfélaginu. Þeir höfðu jafnvel tekið kristna trú. Stundum var þessi aðlögun varnarviðbrögð gegn mögulegum ofsóknum en hún var líka merki þessi að margir gyðingar litu fyrst og fremst á sig sem Þjóðverja. Sem dæmi um þetta er að ákaflega margir gyðingar börðust fyrir Þýskaland í Fyrri heimsstyrjöldinni. Þetta er að mörgu sambærilegt við þá Vestur-Íslendinga sem börðust í sama stríði. Þeir vildu sýna þjóðhollustu sína. Þeir töldu að með því að berjast fyrir landið sitt þá yrðu þeir metnir að verðleikum, sem fullgildir borgarar. En Hitler ofsótti ekki bara þá gyðinga sem skáru sig úr hópnum. Hann ofsótti gyðinga sem aldrei sóttu samkunduhús sem og þá er sóttu kirkjur. Hann ofsótti gyðinga sem höfðu aðlagað sig svo vel að þýsku samfélagi að þeir gáfu börnum sínum germönsk nöfn eins og Elsa.

Mér finnst Jojo Rabbit vera frábært innlegg nú þegar við sjáum ris fasista um víða veröld. Við megum hlæja að þessum bjánum en við þurfum að taka þá nógu alvarlega til þess að geta barist gegn þeim.