Hvaða áhrif hefur faraldurinn á mig?

Þetta eru undarlegir tímar. Ég dró mig aðeins fyrr í hlé en aðrir af því að ég hafði áhyggjur af því að astminn minn gerði mig viðkvæmari fyrir veirunni. Lukkulega virðast þær áhyggjur ekki á rökum reistar (þó erfitt sé að vita nokkuð fyrir víst) en ég var byrjaður að fresta því að hitta fólk áður en staðfest smit komu fram á Íslandi.

Það er orðið töluvert langt síðan ég tók upp þátt af hlaðvarpinu mínu Botninn. Önnur plön í Kistunni eru líka í biðstöðu. Það er enginn spenntur að borga fyrir aðgang að upptökuveri í þessu ástandi.

Ég hef hins vegar afrekað að taka upp tvo þætti af Stories of Iceland hlaðvarpinu mínu. Það er alltaf mikið niðurhal á þeim þáttum og það er alveg smá peningur að koma inn í gegnum Patreon.

Ég var líka rétt byrjaður að stofna einkahlutafélag um reksturinn minn – Gneistinn – menningarmiðlun ehf. – og þó kennitalan sé komin þá er ég ekki einu sinni búinn að stofna bankareikning. Ekki bara til að forðast fólk heldur vantaði mig tóner í prentarann og það var merkilega erfitt að redda því.

Ég er að vinna í 2-3 spilahugmyndum sem ég ætti að geta klárað fyrir sumarið þannig að þau komi út fyrir jól en ég er svolítið frosinn eins og er. Ástandið í þjóðfélaginu er þannig að maður veit ekki hvort það sé góð hugmynd að keyra hugmyndir áfram.

Ég hélt að ég gæti fljótlega farið að borga sjálfum mér reglubundinn laun – frekar en reiknað endurgjald – en maður veit ekkert hvaða áhrif ástandið hefur. Það lítur út fyrir að þetta hafi ekki verið góður tími til að hætta í öruggu starfi og byrja að byggja upp rekstur.

Mér fannst vanta uppbyggilega afþreyingu fyrir fólk á þessum tímum þannig að ég gerði alvöru úr því að endurvekja prófarkalestur Rafbókavefsins. Eftir á fór ég að pæla að á sama tíma voru ótal fyrirtæki að setja upp vefverslanir. Það er verkefni sem reynir á sömu kunnáttu og að setja upp vefþjón fyrir Rafbókavefinn fyrir utan að vefverslanir eru kerfi sem sett eru upp á hverjum degi um allan heim þannig að það eru til miklar og góðar leiðbeiningar fyrir svoleiðis á meðan ég var líklega sá fyrsti sem setti upp þessa útgáfu af DP-kerfinu. Ég er ekki endilega góður að græða peninga á hugmyndum mínum og hæfileikum.

Fyrir svona viku ákvað ég að klippa mig og snyrta skeggið. Eitthvað var einbeitingin léleg þannig að ég náði að raka of mikið af. Það endaði með skeggi sem var styttra en það hefur verið í ótalmörg ár. Lukkulega þarf enginn að sjá þetta nema fjölskyldan. Strákunum fannst þetta ekki gott lúkk. Þar sem ég hafði verið að grínast í Gunnsteini, sem missti tönn, með því að syngja „Hann er tannlaus greyið“ fór Gunnsteinn að syngja fyrir mig „Hann er skegglaus greyið“. Ég bætti við eitthvað á þessa leið „skeggið hann missti rakstursslysi í“.

Stóra spurningin sem við höfum spurt okkur á heimilinu er hvort við höfum kannski fengið vírusinn. Allavega gekk yfir alda hóstandi fjölskyldumeðlima. Var það vírusinn? Enginn fékk nema nokkrar kommur í hita en aftur á móti hafa margir sem Eygló umgekkst í vinnunni fengið staðfestar greiningar. Ef það verður mögulegt að prófa hvort maður hafi myndað mótefni gegn vírusnum þá langar mig í það próf.

Þar sem við vorum hóstandi héldum við strákunum meira og minna heima fyrir páskafrí. Hvað við gerum eftir páska kemur í ljós. Páskaplönin mín eru annars öll horfin. Eygló ætlaði að fara með strákana austur á meðan ég væri heima að klára ýmislegt í framkvæmdum hérna heima við. Þar sem margir þeirra sem Eygló og strákarnir ætluðu að hitta fyrir austan eru mögulega viðkvæmir fyrir vírusnum þá var auðvitað hætt við þá ferð. Mér finnst líka ekkert frábær hugmynd að vera í háværum framkvæmdum meðan nágrannarnir eru allir heima.

Í staðinn hef ég verið að baka ýmislegt. Hef núna plön um að steikja kleinur við tækifæri. Heimatilbúin páskaegg eru líka á dagskránni á fimmtudag/föstudag. Ég hef gert svoleiðis nokkrum sinnum áður. Ekkert flókið, bara bræða súkkulaði í form. Líklega verður síðan settur einhver þrívíddarprentaður karakter á toppinn.

Ég hef verið að leika mér í tölvuleik sem heitir Epiphany. Sá er eftirherma af langsamlega uppáhaldstölvuleik mínum: Boulder Dash. Epiphany er opinn hugbúnaður og einhver hefur tekið að sér að búa til tól þar sem maður getur sjálfur búið sér til ný borð til að spila. Ég skemmti mér töluvert í gær að búa til snöggt borð og síðan spila það. Það var erfiðara en maður hefði haldið. Ég fann auðvitað galla í hönnun minni sem ég þurfti að laga en síðan þurfti maður smá lagni til að klára borðið.

Mér er farið að leiðast tilbreytingaleysið og að hanga inni. Tilhugsunin um að loftmengun í borginni sé í sögulegu lágmarki vekur hjá mér langanir til að fara út að hjóla en það væri ekkert rosalega góð hugmynd. Ég þyrfti líka að setja nagladekkinn undir og svona.

Í heild hef ég það ágætt en hef auðvitað áhyggjur af framtíðinni eins og þið hin. Maður getur vonað að komandi kreppa verði til umbóta í samfélaginu en auðvitað er alltaf hætta á hinum gagnstæða. Maður verður allavega að gera sitt best til að bæta heiminn.