Ég hef ekki leynt þeirri skoðun minni að Facebook sé ömurlegt fyrirbæri sem eyðileggur allt. Ég sakna gömlu tímanna þegar það voru blogg og vefrit út um allt. Ein ástæðan fyrir því að það gekk allt saman var að við höfðum veitur sem söfnuðu og deildu hlekkjum á öll þessi skrif.
Ég man fyrst eftir rss.molar.is sem var veita sem Bjarni R. Einarsson hélt utan um. Síðan var Mikki Vefur. Að lokum var Blogggáttin. Þegar síðastnefnda veitan hætti störfum var ekkert eftir.
Ég var að vona að eitthvað annað myndi spretta upp en það gerðist ekki. Ég ákvað því að keyra af stað sjálfur BloggKistuna. Þetta er örlítið öðruvísi en forverarnir. Ekki svona yfirlit í töflu heldur er útlitið meira eins og fréttasíða eða vefrit (útlitið mun þó líklega breytast eitthvað þegar á líður). Yfirlitið vísar síðan beint á upprunalegu færslurnar – hvar sem þær eru.
Ég ætla að vona að þetta hvetji fólk til að halda virkni í bloggum og vefritum. Ég vona líka að fólkið sem er hrifið af hugmyndinni verði duglegt að benda á þessa veitu.
Ef þið viljið benda mér á vefrit eða blogg sem ætti heima þarna þá má endilega setja komment hér eða senda línu á blogg@kistan.is.