Ónáttúruleg náttúra Guðmundar Franklín

Fyrirsjáanlegasti forsetaframbjóðandinn er kominn fram. Það er Guðmundur Franklín. Hann er lengi búinn að vera auglýsa hálfsamhengislausar færslur sínar á Facebook. Hann hefur líka gert margar mislukkaðar tilraunir til að koma sér á framfæri í stjórnmálum.

Ég hef auðvitað engar áhyggjur af því að Guðmundur Franklín nái kjöri. Getur hann náð nægilega mörgum undirskriftum? Hver veit? Sprellararnir skrifa væntanlega frekar undir hjá falskaflaggsmanninum. Trump hefur þó sýnt að peningar geta fleytt manni langt í stjórnmálum en ekki tókst Bloomberg að kaupa sér fylgi í forkosningunum núna. Það má nefnilega ekki gleymast að Trump var sjónvarpsstjarna. Guðmundur Franklín er það ekki.

Ef ég leyfi mér að fara í hlutverk “álitsgjafa” eða hvað maður getur kallað svoleiðis þá verða möguleg áhrif Guðmundar helst þau að aðrir sem hafa gælt við forsetadrauminn sjá sér færi á að koma í kjölfarið. Það er nefnilega auðveldara að kúka stökkva í laugina þegar einhver er á undan manni.

Spurningin er þá hvort einhver getur raunverulega haggað Guðna. Ég held ekki. Ekki núna. Ef Guðmundur nær undirskriftunum og verður einn í framboði gegn Guðna þá nær hann í mesta falli óánægjuatkvæðunum og þau eru ekki nægilega mörg.

Í mér blunda tvær skoðanir. Annars vegar tel ég lýðræðið ákaflega mikilvægt. Hins vegar langar mig bara ekkert að fara í forsetakosningavesen í þessum aðstæðum bara til þess að Guðmundur Franklín geti barist við vindmyllurnar sínar. Hann segir m.a. “að ESB verði aldrei samþykkt án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu.” Ég veit ekki til þess að nokkur vilji að við göngum í ESB án þjóðaratkvæðagreiðslu.

Allt þetta er þá fyrst og fremst afsökun fyrir því að tala um myndina sem Guðmundur Franklín hefur sett á hausinn á Facebook-síðunni sinni. Hún er mikið afrek. Tæknilega séð er hún auðvitað illa unnin. Ég hélt að Guðmundur ætti næga peninga til að fá einhverja í myndvinnslu fyrir sig. Kannski er hann bara nískur. Allavega er þetta í ætt við það sem Ástþór gerði á sínum tíma en myndvinnslu hefur fleygt fram í millitíðinni.

Grunnmyndin er í raun flott. Fallegt fall, fallegir litir. En þegar ég sá hana hlaðast inn líktist hún helvíti. Fyrsta vandamálið er að litir bakgrunnsins passa alls ekki við myndina af Guðmundi. Hann passar ekki þarna. Þetta verður ýktara þegar myndin er skoðuð betur. Hún er illa klippt. Útlína Guðmundar er alveg rosalega pixluð. Það er bókstaflega eins og að gamli bakgrunnur myndarinnar sé þarna ennþá. Það er ótrúlega létt að gera þetta betur, meira að segja ég get það. En Guðmundur er líka bara kjánalegur á myndinni. Þetta á væntanlega að tákna að hann sé að horfa til framtíðar. Það er ekki það sem ég sé. Ég sé mann sem er utangátta. Hann veit ekkert hvað er að gerast. Kannski er hann að horfa á vörubílinn nálgast en hann áttar sig ekkert á því að hann ætti að fara af veginum. Hann er í raun voðalega Ástþórslegur.

Ef ég væri betur að mér í letri þá myndi ég væntanlega geta komið með einhverja útskýringu á því af hverju mér líkar ekki við hvernig textanum hefur verið komið þarna fyrir. Staðsetningin er auðvitað ekki frábær en það er ýmislegt meira að.

3 thoughts on “Ónáttúruleg náttúra Guðmundar Franklín”

  1. Þetta er ógeðslega fyndin mynd! Vonandi reynir hann fyrir sér í uppistandsbransanum að þessu loknu.

    Annars er aðalatriðið hérna, sem þú orðaðir svo vel:

    „Hins vegar langar mig bara ekkert að fara í forsetakosningavesen í þessum aðstæðum bara til þess að Guðmundur Franklín geti barist við vindmyllurnar sínar.“

  2. Ég væri til til í að sjá margar í einu kúka í sundlaug…ákveðin hópstemming

Lokað er á athugasemdir.