Samsæri nýju menningarbyltingarinnar

Höfundaréttshafi 	Gage Skidmore from Peoria, AZ, United States of America
Höfundaréttshafi Gage Skidmore from Peoria, AZ, United States of America

Ég held að Mike Cernovich sé nafn sem allir ættu að þekkja. Því miður.

Bakgrunnur hans er kjánalegur. Fyrrverandi kona hans er lögfræðingur sem auðgaðist mjög í Kísildal. Þegar þau skildu fékk hann einhverjar milljónir í Bandaríkjadölum. Hann taldi að femínismi hefði eyðilagt hjónabandið þannig að hann eyddi kröftum sínum (og peningum sinnar fyrrverandi) í andfeminískan áróður. Þar má t.d. nefna Gamergate.

En hann er frægari fyrir að dreifa Pizzagate áróðri. Það er heimskuleg samsæriskenning um barnaníðshring Demókrataflokksins sem náði hápunkti sínum þegar vopnaður maður réðst inn á pizzastað í Washington DC.

Það sem ég vildi beina sjónum lesenda að eru árásir Cernovich á fræga menn, aðallega þó sem hafa gagnrýnt öfgahægrið sem er að rísa í Bandaríkjunum.

Það sem hann gerir (að eigin sögn) er að borga einhverjum fyrir að leita að einhverju vafasömu í fortíð þessara manna. Það eru til dæmis gömul tíst. Frægasta dæmið er James Gunn, leikstjóri Guardians of the Galaxy myndanna. Cernovich gróf upp eitthvað vafasamt tíst úr fortíð Gunn og notaði það í herferð til þess að láta Disney reka leikstjórann. Hann var rekinn og ráðinn aftur.

Cernovich gerði það sama við þáttastjórnandann Sam Seder. Hann fann gamalt tíst þar sem Seder var að ráðast með hæðni á stuðningsfólk Roman Polanski. Seder var líka rekinn og ráðinn aftur.

Dan Harmon (höfundur Community og Rick and Morty) lenti líka í Cernovich. Hann fann gamalt grínmyndband sem Harmon hafði gert áður en hann varð frægur. Það var snúið út úr því og reynt að láta reka hann frá Rick and Morty. Það tókst ekki að reka hann en Harmon þurfti að þola allskonar ömurlegheit á meðan þessu stóð.

Fyrir almenning hefði verið auðvelt að skilja öll þessi mál sem eitthvað „political correctness gone mad“. En í raun var það bara öfgahægrimaðurinn Cernovich með hjálp stuðningsmanna sinna (og botta) að búa til deilumál.

Mér verður því hugsað til Cernovich þegar maður heyrir til dæmis fréttir af því að þáttur af Golden Girls hafi verið tekinn af streymisveitum vegna meintrar andlitssvertu. Ég myndi allavega vilja vita hver það var sem kvartaði yfir þessu. Mér finnst mun líklegra að Cernovich eða einhver álíka sé að reyna að búa til deilur frekar en að einhver hafi í raun verið hneykslaður á Klassapíunum.