Haukur Örn Birgisson skrifaði andlausa bakþanka í Fréttablaðið í gær. Ekki frétt. En ég ætla að gagnrýna skrifin af því að það er ekkert auðveldara. Ég veit ekki hvort ég er að rýna til gagns en allavega er þetta gaman.
Við skulum byrja á fullyrðingu Hauks.
Kannanir í bandarískum háskólum sýna að tveir þriðju nemenda tjá ekki skoðun sína í kennslustund af ótta við að móðga samnemendur sína.
Mér fannst þessi tala frekar vafasöm. Verst er auðvitað að Haukur vísar ekki á neitt – bara óljós á „kannanir“. Ég leitaði og fann eina könnun sem hann gæti verið að tala um.
More than two-thirds (68 percent) of college students say their campus climate precludes students from expressing their true opinions because their classmates might find them offensive.
Ef Haukur er að vísa í þessa könnun þá er hann auðvitað að mistúlka hana. Það sem þessir stúdentar segja er ekki að þeir séu hræddir við að tjá skoðanir sínar heldur að sumir séu það. Þetta virðist því aðallega segja manni að stúdentar trúi áróðurslínu hægri sinnaðaðra fjölmiðla í Bandaríkjunum. Ég tók reyndar eftir að svarhlutfall í könnunni var um 44%. Það er ekki neinn grunnur til að fullyrða um heildina.
Hvað liggur að baki þeirri trú að málfrelsi sé í hættu í bandarískum háskólum? Almennt er það bara að einstök mál eru blásin upp. Ein birtingarmynd þess er þegar „ögrandi“ fyrirlesarar mæta mótmælum þegar þeim eru boðið að tala á háskólasvæðum. En hvaðan koma þessir „ögrandi“ fyrirlesarar og hver er að bjóða þeim?
Ef við skoðum samtök á borð við Turning Point USA sem borga þessum fyrirlesurum sjáum við að þau eru verkefni bandarískra milljarðamæringa sem eru að reyna að troða áróðri inn í háskóla. Þá er stundum mótmælt og þau mótmæli eru kölluð árás á málfrelsi. Í raun er verið mótmæla áróðri.
En er ekkert raunverulegt vandamál? Eru vinstri sinnaðir stúdentar ekki alltaf að „aflýsa“ grey hægri sinnuðum prófessorum sem þora að nýta málfrelsi sitt? Nei. Þvert á móti. Það eru vinstri sinnaðir prófessorar sem lenda í því að vera reknir fyrir skoðanir sínar. Það er vandamál. Samtök eins og Turning Point USA mála sig sem málsvara málfrelsis en vilja síðan sjálf reka þá sem eru þeim ósammála.
Kannski að það væri hægt að rökræða við Hauk ef hann nefndi einhver raunverulega dæmi. En hann talar í hálfkveðnum vísum.
Markmiðið er jafnvel að þagga niður í þeim sem hafa „ranga“ skoðun. Útiloka þá frá umræðunni. Margt bendir til þess að íslensk umræðuhefð sé á slíkri vegferð.
Það er mikilvægt að geta tjáð skoðun sína um menn og málefni án þess að ummælin séu kölluð hatursfull af þeim sem eru manni ósammála.
Málið er að sumar skoðanir eru hatursfullar. Sumar skoðanir eru líka rangar – í þeim skilningi að þær eru ekki sannar. Síðan eru til rangar skoðanir sem eru ígildi þess að öskra „eldur“ í troðnum bíósal. Ef þeim er svarað með því að benda á að 1) það sé enginn eldur og 2) það sé hættulegt að segja að hræða fólk í þessum aðstæðum þá er ekki verið að ráðast á málfrelsi neins.
Þegar við skoðum hryðjuverkamenn sem ráðast á moskur eða svart fólk sjáum við að þeir eru undir áhrifum fólks sem öskrar „eldur! eldur!“. Þegar fólk vogar sér að svara haturspostulunum þá er það ásakað um árás á málfrelsið sjálft. Það má ekki heldur gagnrýna stórfyrirtæki fyrir að græða á hatri eða auglýsa það.
Hinir ríku og valdamiklu hafa sína málsvara. Þeir geta fjármagnað fjölmiðla til að koma „réttum“ skoðunum á framfæri. Síðan eru frasar eins og aflýsingarmenning notaðir til að brjóta á málfrelsi hinna valdalitlu – í nafni málfrelsis. Öllu er blandað saman í eina hrúgu til að rugla umræðuna. Ýkt dæmi um bjánalega gagnrýni eru notuð til að hunsa alla.